Fréttir

Samvinna við Norður-Norðmenn

6. jan. 2015

Í september á liðnu ári tók Síldarminjasafnið þátt í ráðstefnu í Melbu í Vesterålen, norðarlega í Noregi. Yfirskrift ráðstefnunnar var Sild og mennesker - vandringer mellom Norge og Island. Þarna voru fulltrúar frá sjö norðlenskum og austfirskum söfnum og stofnunum. Þingað var í tvo daga og voru mörg erindi flutt og merkir staðir skoðaðir. Erindin fjölluðu flest um málefni tengdum landnámi Íslands og síldveiðum á seinni öldum.

Örlygi, safnstjóra Síldarminjasafnsins, var boðið sérstaklega til ráðstefnunnar ásamt þremur öðrum safnstjórum og héldu þeir erindi til kynningar á söfnum sínum og sérstökum málefnum þeim tengdum. Erindi og myndasýning Örlygs fjallaði sérstaklega um áhrif Norðmanna á Siglufirði.
Tildrög þessarar þátttöku og samvinnu við Vesterålen voru þau að fyrir tveimur árum voru nokkrir norskir safnmenn hér á ferð og skoðuðu m.a. Síldarminjasafnið. Í ferðinni mynduðust tengsl milli manna og ákveðið var að þeir boðuðu til þessa fundar ári síðar.
Eitt af því sem Norðmennirnir sýndu sérstakan áhuga á Síldarminjasafninu var verksmiðjusýningin í Gránu. Í bænum Melbu er gömul síldarverksmiðja sem rúin hefur verið nær öllum tækjakosti. Hafa safnmenn þar mikinn áhuga á að safna gömlum vélum og tækjum og koma þar upp verksmiðjusýningu. Yrði það eina safn sinnar tegundar í Noregi að þeirra sögn. Var því fulltrúi  Síldarminjasafnsins fenginn sérstaklega til að skoða verksmiðjumannvirkin og hlusta á sjónarmið heimamanna og leggja á ráðin. Kvöddust menn með þeim orðum að þeir kæmu síðar í nokkurskonar pílagrímsferð til að skoða Gránusýninguna og læra af Siglfirðingum.

 

Ljósmynd: Tíu Íslendingar í Melbu í ráðstefnulok með gestgjöfum og fyrirlesurum.


Fréttir