Fréttir

Myndagjöf

27. mar. 2015

Síldarminjasafninu hefur borist góð gjöf frá bræðrunum Oddi Guðmundi og Má Jóhannssonum - en það eru allar Siglufjarðarmyndir þeirra og gætu þær verið nálægt 2000 að tölu. Báðir voru þeir áhugaljósmyndarar og eru myndir Más frá unglingsárum hans 1960-1969. Þar eru athyglisverðar bæði „myndræn hafnarmótíf“ og myndir frá atvinnulífinu. Myndir Odds eru líklegast teknar eftir 1970 og eru einnig afar fjölbreytilegar m.a. margskonar mannlífsmyndir og frá höfninni kringum 1980 þegar ástand bryggja og mannvirkja gömlu síldarfyrirtækjanna var hvað hörmulegast. Leitun er að jafn áhrifamiklum Siglufjarðarmyndum frá þessu skeiði. Sögulegt gildi þeirra er ótvírætt í ljósi þess hvernig umhorfs hafði verið í stærstu og líflegustu höfn landsins um áratugi og einnig með samanburði við það hvernig Siglufjarðarhöfn og allt umhverfi hennar

  .

hefur tekið stakkaskiptum í seinni tíð.

Oddi og Má eru færðar bestu þakkir frá Síldarminjasafninu fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

Mynd Odds Guðmundar: Gamlar bryggjur og nótabátur víkja fyrir Togarabryggju í smíðum. Myndin er tekin þaðan sem Harbour House Café stendur nú.

Mynd Más: Söltunarstöðvarnar undir Hafnarbökkunum. Á þessu svæði í dag stendur Síldarminjasafnið og Hótel Sigló.



Fréttir