Fréttir

Jeppinn Kalli

5. jún. 2015

Laugardaginn 23. maí sl. var Willis jeppi af árgerð 1947 afhentur Síldarminjasafninu. Hann var upphaflega í eigu Karls Sturlaugssonar og síðan áttu synir hans Hjörtur og Guðlaugur jeppann - en það voru börn þeirra bræðra sem gáfu jeppann til minningar um þá bræður. Hér á eftir fer þakkarávarp Örlygs safnstjóra sem hann flutti við afhendinguna.

"Það eru orðin mörg ár síðan Sveinn Hjartarson hvíslaði því að mér að líklegast myndi jeppinn Kalli enda hér á Síldarminjasafninu. Og nú er það orðið að veruleika. Þeim frændsystkinum öllum sem kennd eru við bræðurna Guðlaug og Hjört Karlssyni, þeim Sveini, Guðnýju, Guðrúnu, Guðbjörgu og Karli vil ég fyrir hönd Sildarminjasafnsins færa bestu þakkir fyrir jeppann, þessa góðu gjöf.

Það er fleirum sem ber að þakka, þeim sem lögðu á sig mikla vinnu við að koma jeppanum í stand, þar er þá helstu að nefna: Hauk Óskarsson bólstrara sem bólstraði nýju sætin líkt og þau gömlu höfðu verið, Ingvar Guðmundsson, málara sem leitaði upprunalegu litanna og málaði hann með líkum hætti og upphaflega, Róbert Guðfinnsson sem kom með varahluti austur um haf – og síðast en ekki síst stöndum við i mikilli þakkarskuld við Gunnar Júlíussson þann mikla öðling sem alltaf er boðinn og búinn að leggja safninu hjàlparhönd og leysa margan vandann. Og ekki má gleyma að þakka Sigþóru Gústafsdóttur fyrir stuðninginn.

Síldarminjasafn Íslands er byggt upp með sérstæðum hætti, hvergi annarstaðar á landinu hafa jafnmargir komið að verki við uppbyggingu safns með sjálfboðavinnu og gjöfum – vil ég leyfa mér að fullyrða. Þetta safn sem er eitt af stærstu söfnum á Íslandi er það langódýrasta hvað snertir uppbyggingakostnað – önnur djarfleg fullyrðing! Og ég held jafnvel að ekkert og hvergi sé til safn á landinu sem jafnmargir eiga!

Allt ber þetta vott um vinarhug og væntumþykju í garð Siglufjarðar og sögu hans. Það sem á sér stað hér í dag er einmitt skýr vottur um vináttu og væntumþykju og að safnið er enn í vexti og þróun.
Í lögum um opinber söfn á Íslandi er kveðið skýrt á um að söfn megi ekki taka við skilyrtum gjöfum – en þau ágætu gefendur, afkomendur Hjartar og Guðlaugs, hafa óskað eindregið eftir að jeppinn verði í daglegri notkun og eftir þörfum hér á safninu. Þessa reglu um skilyrtar gjafir er okkur ljúft að brjóta. En við skulum ekki hafa hátt um þetta."

 

Á myndinni eru frændsystkynin við afhendingu jeppans: Guðbjörg, Guðrún, Karl og Guðný Guðlaugsbörn, frænka þeirra Herdís Gunnarsdóttir og Sveinn Hjartarson.

 

Mynd: Hellan/Sigurður Fanndal

Fréttir