Fréttir

Syngjandi sæll og glaður - sjómannalögin í tali og tónum

19. apr. 2016

Í tilefni af Eyfirska safnadeginum sem haldinn verður næstkomandi fimmtudag, sumardaginn fyrsta, mun Rósa Margrét Húnadóttir, þjóðfræðingur og fyrrum starfsmaður Síldarminjasafnsins, fjalla um sjómannalög í erindi sínu ,,Draumur hins djarfa manns: frá sjómannalögum til gúanórokks.“ Henni við hlið verður Haukur Orri Kristjánsson, harmonikkuleikari. Saman munu þau gera sjómannalögunum skil í tali og tónum.

"Sjómannalögin voru órjúfanlegur partur af dægurlagaflóru Íslendinga á vissu tímabili. Tónlistin átti sitt blómaskeið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en upp úr því varð breyting á umfjöllun slíkra laga um sjómannslífið. Breytingarnar kallast á við breytingar samfélagsins og þá hröðu þróun og tækniframfarir sem urðu í íslenskum sjávarútvegi upp úr miðri 20. öld. Hér er því ekki aðeins um umfjöllun um dægurtónlist að ræða heldur greiningu á því samfélagi sem hún sprettur upp úr." segir Rósa. 

Dagskráin hefst kl. 14:00 í Bátahúsinu. Enginn aðgangseyrir - allir velkomnir!

Fréttir