Fréttir

Roaldar í heimsókn

31. ágú. 2016

Um miðjan ágúst heimsóttu ættingjar Eliasar Roald, sem byggði Róaldsbrakka og stundaði þar síldarsöltun í tuttugu ár, Síldarminjasafnið. Um var að ræða einskonar pílagrímsferð þar sem þeir Alexander, Steinar, Markus og Anders vildu leita róta sinna og heimsækja staðinn sem afi þeirra og langafi hafði haldið svo upp á.

Þeir feðgar og frændur vörðu einum degi á Siglufirði. Drjúgur tími fór í kaffispjall við starfsfólk safnsins þar sem bækur voru bornar saman og Alexader, sem hefur skrifað sögu fjölskyldunnar, afhenti safninu upplýsingar um lífshlaup Eliasar sem og fjölskylduljósmyndir – en fram til þessa hefur ekki verið til mynd af Eliasi Roald hér á safninu.

Það má með sanni segja að það hafi verið tilfinningarík stund þegar fjórmenningarnir gengu inn í Róaldsbrakkann – sér í lagi fyrir Alexander, sem ólst upp hjá afa sínum og ömmu, og heyrði fjölmargar sögur af lífinu á Siglufirði frá fyrri hluta síðustu aldar. 

Fréttir