Fréttir

Heimsókn til Gdansk

4. feb. 2017

Um miðjan janúar héldu tveir starfsmenn Síldarminjasafnsins til Póllands, nánar tiltekið til Gdansk í þeim tilgangi að heimsækja Sjóminjasafn Póllands en höfuðstöðvar þess eru staðsettar í borginni. Sjóminjasafnið í Gdansk starfar á landsvísu, með um 240 starfsmenn og sex starfstöðvar. Þær Anita og Steinunn heimsóttu fjórar starfsstöðvar pólska safnsins; höfuðstöðvarnar í Gdansk og forvörsludeildina sem og starfsstöðvarnar í Tczew og Kąty Rybackie. 

Á Sjóminjasafni Póllands er mikil áhersla lögð á varðveislu og rannsóknir á skipsflökum sem bjargað hefur verið úr hafi. Öll aðstaða forvarða og annarra starfsmanna er til fyrirmyndar. Meðal annars er notast við þrívíddarskanna og -prentara, röntgentækni og þurrfrysti. Stór hluti gripanna eru skipsflök, eða hlutar þeirra, fatnaður, áhöld og verkfæri úr skipum sem legið hafa á hafsbotni allt frá því á 11. öld. Safnkosturinn er því að flestu leyti afar ólíkur safnkosti Síldarminjasafnsins sem miðast að langmestu leyti við 20. öldina. 

Heimsóknin var engu að síður verulega lærdómsrík og fræðandi, ekki síst á sviði fyrirbyggjandi forvörslu og varðveislu sjóminja – og nú er unnið að því að koma hluta af starfsliði pólska safnsins í heimsókn til Siglufjarðar.


Skipsflak á grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Gdansk.
Vinnuaðstaða forvarða, smiða og annarra sérfræðinga í Tczew.

Að neðan: Bátar á sýningu í Tczew.


Fréttir