Viðtöl við 'síldarfólk'
Síðustu vikurnar hefur Anita Elefsen safnstjóri ferðast um landið með kvikmyndatökumanni í þeim tilgangi að taka viðtöl við bæði menn og konur sem unnu í síld, hvort sem var í landi eða á sjó. Meginmarkmiðið er að afla heimilda um líf og störf fólks, tíðarandann, rómantíkina, erfiðið, tilfinningarnar, tónlistina, félagslífið, verkunaraðferðir, hjátrú og aðra mikilvæga þætti þessa tímabils í sögu þjóðarinnar og varðveita á Síldarminjasafninu.
Jafnframt er ætlunin að velja stutt brot úr viðtölunum til miðlunar í safnhúsum Síldarminjasafnsins. Sýnt er að áhugi gesta kviknar fljótt þegar sagan er sögð út frá persónulegri reynslu eða hún persónutengd á einhvern hátt. Að því sögðu má gera ráð fyrir að lifandi frásagnir fólks sem sjálft tók þátt í síldarævintýrinu veki mikinn áhuga gesta og dýpki skilning þeirra á þeirri sögu sem miðlað er á safninu.
Viðmælendur hafa fram til þessa verið fimmtíu talsins, á Siglufirði, Dalvík, í Hrísey, á Akureyri, Húsavík, Ísafirði, Reykjavík og Akranesi. Meðal þeirra sem rætt hefur verið við eru fyrrum síldarstúlkur, verksmiðjukarlar, sjómenn, skipstjórar og netagerðarmenn.
Á næstum dögum verður farið austur á Seyðisfjörð og til Raufarhafnar og þar með lokið við upptökur í bili. Áætlað er að viðmælendur verði nálægt sjötíu í heildina - en upphaflega var stefnt að þrjátíu viðtölum.
Verkefnið er styrkt af Safnaráði en þar að auki hafa söfn og menningarstofnanir lagt verkefninu lið með vinnuaðstöðu sem hefur komið sér afar vel.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt