Saga úr síldarfirði

Saga úr síldarfirði segir frá Sigga sem 12 ára gamall flyst ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar í upphafi síðustu aldar. Þar bíður ný framtíð þeirra sem áður sáu ekki aðra leið út úr ógöngum og sárri fátækt en að flytja til Vesturheims í von um betra líf. Tilvera Sigga tekur stakkaskiptum – en það er ekki einfalt að byrja upp á nýtt á ókunnum stað.

Örlygur Kristfinnsson, myndlistarmaður og safnstjóri Síldarminjasafnsins, segir í þessari bók sögu sem kemur okkur við. Hann segir okkur hvernig síldarbær varð til –

iðandi af lífi með alþjóðlegum blæ – þar sem silfur hafsins var gjaldmiðillinn sem greiddi dugmiklu alþýðufólki leið úr örbirgð til bjargálna og breytti íslensku samfélagi á undraskömmum tíma.

Höfundur myndskreytir bókina sjálfur með glæsilegum vatnslitamyndum sem fullkomna verkið og tendra í frásögninni liti og líf.

Verð kr. 2.500,-
Bókina má panta með því að senda tölvupóst á netfangið: safn[hjá]sild.is eða hringja í síma 467 1604.