Fréttir

98,7% safngesta ánægð

3. des. 2019

Á sumarmánuðum var gerð könnun meðal ferðamanna sem heimsóttu söfn, setur eða sýningar á Norðurlandi. Könnunin var unnin af Rannsóknarmiðstöð ferðamála að beiðni Markaðsstofu Norðurlands og er hún hluti af greiningu á möguleikum í sögutengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi. Almennt var niðurstaða könnunarinnar afar góð fyrir söfn og var Síldarminjasafnið þar engin undantekining. 98,7% svarenda sögðust mjög ánægð eða ánægð með heimsókn sína á Síldarminjasafnið – og enginn svarenda var óánægður! Nær helmingur þeirra ferðamanna sem svöruðu könnuninni höfðu ákveðið að heimsækja safnið áður en ferðalagið hófst.

Markaðsstofa Norðurlands stóð fyrir ráðstefnu um tækifæri í sögutengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi á dögunum þar sem niðustöður umræddrar könnunar voru kynntar, auk fleiri erinda. Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins flutti erindi og sagði frá því hvernig safnið hefur nálgast erlenda ferðamenn og stóraukið gestafjölda á undanförnum árum. Síðastliðin tíu ár hefur gestum safnsins fjölgað um 180% - eða úr 10.000 gestum árlega í tæplega 28.000. Mest hefur aukningin orðið meðal erlendra ferðamanna, en síðustu fimm ár hefur hlutfall erlendra gesta á safninu aukist úr 20% í 73%.

Það er forsvarsmönnum safnsins því afar ánægjulegt að hafa séð mettölur í gestafjölda árlega frá árinu 2013. Undanfarin ár hafa víða heyrst fréttir af fækkun ferðamanna og samdrætti í ferðaþjónstu. Við hér á Síldarminjasafninu höfum verið svo heppin að slíkt hefur verið fjarri okkar raunveruleika, en við höfum verið í bæði vexti og sókn undanfarin ár, og erum enn. 

Fréttir