Tunnuhringur

Við síldarsöltun var svonefndur tunnuhringur settur ofan á fulla tunnuna og síld lögð í þrjú lög til viðbótar upp að efri brún hringsins. Eftir hæfilegan tíma, 10-15 klukkustundir, hafði innihaldið sigið svo að tunnan var nær sléttfull. Síðan var ,,lagað ofan á“ eða ,,ápakkað“ eins og það var kallað og tunnan síðan pækilfyllt með hjálp pækilspaða og botninn að lokum sleginn í. Við ápökkun var síldinni í efsta laginu snúið við þannig að svarblátt bakið snéri upp en í öðrum lögum tunnunnar sneri hvítur kviðurinn upp. Söltunarstúlkur voru oftast settar í að laga ofan á en karlmaður, ,,díxilmaðurinn“, sá um tilsláttinn.

Almenn notkun tunnuhringja hófst um 1930 og er talið að fyrstu hringirnir hafi verið smíðaðir og reyndir á Akureyri. Áður var kúfsaltað eins og kallað var. Ofan á efsta síldarlagið við laggarbrún tunnunnar var lagður kúfur af aukasíld sem duga átti fyrir það sem á vantaði þegar sigið hafði í tunnunni. Til að halda ,,kúfnum“ var ferhyrnd strigapjatla lögð yfir og hornum hennar troðið niður milli síldar og stafa. Þannig var síður hætta á að ,,kúfsíldin“ félli af tunnunni þegar henni var ekið frá síldarstúlkunni. (Hljóðrituð frásögn Björns Þórðarsonar 1992.)

Notkun tunnuhringanna var einn liður í þróun síldarvinnunnar á söltunarplönunum.

Tunnuhringir voru gerðir úr krossviðarrenningum 15 sm breiðum og 140 sm löngum – og voru endar renningsins negldir saman þannig að þeir mynduðu hring. Þrír litlir kubbar á utanverðum hringnum stýrðu því að hann sæti rétt á tunnunni.

Á sumum söltunarstöðvum (t.d. á Henriksenplaninu og Ísfirðingaplaninu) voru krossviðarrenningarnir notaðir ósamansettir en snúið upp í hring þegar þeim var komið fyrir ofan á tunnunni. Slíkir renningar voru að sumu leyti þægilegir í notkun og tóku mun minna geymslupláss en hringirnir.

Á myndinni hér að ofan sést hringur ofan á heiltunnu og bak við er lítil stæða hálftunnuhringa frá Ísfirðingaplaninu. SÍ = Samvinnufélag Ísfirðinga og síðar Síldarsöltun Ísfirðinga. Undir það síðasta (á síðustu síldarárunum 1965-68) var farið að huga að notkun álhringa á Henriksenplaninu og er einn slíkur varðveittur á Síldarminjasafninu.


Heimildir: Handbók síldarverkunarmanna e. Magnús Vagnsson Sigluf. 1939. Hljóðrituð frásögn Björns Þórðarsonar 1992. Viðtal við Hannes Baldvinsson síldarmatsmann 2009.

Síldarminjasafn Íslands  - ÖK 2009