Síldartunna
Um síldartunnur – og tunnur almennt
Síldartunnur eins og þær sem sjást hér á myndinni voru framleiddar og notaðar á Siglufirði um áratugi.
Tunnan er gerð úr hefluðum tréstöfum (oftast 15-20 að tölu) sem mynda sívalning sem mjókkar til endanna. Enda- og búkgjarðir (bumbugjarðir) halda tunnunni saman. Í síldartunnum eru tveir botnar, neðri- og efribotn, samkvæmt siglfirskri málvenju! Borað var á tunnuna gat, sponsgat, þar sem tappinn eða sponsinn var rekinn í. Um sponsgatið var síldin pækluð, sterkum saltlegi hellt á síldina til réttrar verkunar.
Tunnusmiður var nefndur beykir. Beykisiðn var iðngreinin. Meðal kunnugra íslenskra beykja var skáldið Sigurður Breiðfjörð (sbr. Benedikt Sigurðsson – Samtíningur um tunnusmíðar á Íslandi).
Tómar tunnur voru jafnan kallaðar tómtunnur. Bylur hæst í tómri tunnu! Álíka orðtak er til í ensku og er á þessa leið: Emty barrels make the most noise. Í hollensku er þetta: Holle vaten klinken het hardst. Fleiri orðasambönd hafa orðið til um tunnurnar, talað er um að falla í stafi, en þá er vísað í gisna og ræfilslega tunnu sem hrynur saman í stafahrúgu. Einnig er talað um að setja eitt og annað á laggirnar en það er vísun í það verk þegar byrjað er að reisa tunnu og tunnustöfunum tyllt á botninn (sbr. Benedikt Sigurðsson – Samtíningur um tunnusmíðar á Íslandi).
Venjuleg tunna, heiltunna, tekur um 120 lítra, hálftunna 60 ltr. og fjórðungur (kvartil) 30 ltr., áttungur var minnst og tekur 15 ltr. Kútar voru allar smátunnur kallaðar sem voru minni en hálftunnur, svo sem kvartil og áttungur. Legill er einnig nafn á smákút. Kaggi, t.d. grútar- eða tjörukaggi, voru hálftunnur svigabentar (sjá nánar í skráningu um svigabentar tunnur). (Heimildir: Silfur hafsins e. Ástvald Eydal Helgafell 1948 – bls. 115. Hannes Baldvinsson viðtal í des ´08. Orðabók Menningarsjóðs)
Áður fyrr og fram á miðja 20. öld voru skíði handa börnum smíðuð úr tunnustöfum. Einföld skíði - og á Siglufirði voru það eðlilega stafir úr síldartunnum sem var efniviðurinn. Slík skíði voru stundum kölluð geplar (Heimildamaður: Páll Helgason).
Þá notuðu strákar tunnugjarðir til að skoppa á bryggjum eða götum, að skoppa gjörð hét leikurinn, og héldu þeir þá smáspýtu í hendi til að slá í gjörðina og stjórna henni og rúlla. Margir eldri menn hafa sagt frá bogum sem þeir smíðuðu úr tunnusvigum, svigaböndum, á tímum svigabentra tunna. Þá er einn leikur ótalinn; en það var að ganga á tómri tunnu á sléttu undirlagi, timburbryggju eða moldargötu. Var það nokkur kúnst þar sem tóm og létt tunna er mjög kvik undir fótum manns.
Sennilega voru 12 tunnuverksmiðjur reknar á Íslandi á 20. öld og helmingur þeirra á Siglufirði. Tunnuverksmiðja Söbstads 1917-19, brann. Tunnuverksmiðja Freys 1924-31, Tunnuverksmiðja Halldórs Guðmundssonar, á Siglufirði, 1929-32, brann. Tunnuverksmiðja Siglufjarðar 1933-46. Tunnuverksmiðja ríkisins, á Siglufirði, 1946-64, brann. Endurbyggð Tunnuverksmiðja ríkisins, á Siglufirði, 1965-71. Aðrar verksmiðjur voru þessar: Pétur Bjarnason rak kjöttunnusmíði í stuttan tíma í Reykajavík um 1915. Tunnuverksmiðja á Ísafirði 1917 og óvíst hve lengi. Tunnuverksmiðja Espholinbræðra á Akureyri á þriðja áratugnum. Tunnugerð Akureyrar 1931-46. Tunnuverksmiðja ríkisins á Akureyri 1946-68 (?) Tunnuverksmiðja í Vestmannaeyjum 1930-42. (Heimild: Silfur hafsins – Gull Íslands bls. 207-214)
Síldarminjasafn Íslands – ÖK og RMH 2009