Lyftikrókur

Lyftikrókar, einnig nefndir lyftihakar (sbr. Benedikt Sigurðsson – Orð úr máli síldarfólks). Lyftikrókar voru notaðir til að lyfta fullum síldartunnum upp í annað og þriðja lag í tunnustæðum. Stóðu þá tveir menn hvor við sinn enda tunnunnar með krókana í höndum og settu þá undir laggirnar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Með báðar hendur á verkfærunum lyftu þeir svo tunnunni.

Krókarnir voru fyrst kallaðir Sigurjónskrókar eftir Sigurjóni Benediktssyni járnsmiði. Hann fann upp á þessu áhaldi og smíðaði að sögn sonarsonar hans Sigurjóns Jóhannssonar myndlistarmanns: ,,Mín heimild er faðir minn sem sýndi mér lyftikrókapar og tjáði mér að þeir væru uppfinning afa mìns, Sigurjòns Benediktssonar, járnsmiðs á Siglufirði. Hvenær hann smíðaði þá fyrst, veit ég ekki, en fram að þeim tíma notuðu menn fingurgómana sem þeir brugðu undir laggirnar við botnana ofanverða og lyftu þannig tunnunni á milli sín“ (Sigurjón Jóhannsson, tölvupóstur þann 11. febrúar 2009) Í Handbók Síldarverkunarmanna e. Magnús Vagnsson stendur svo á bls. 19:

,,Krókar til að lyfta tunnum upp í annað lag eru margskonar, flestir lítið sparandi og sumir hættulegir. En til eru ágætir lyftikrókar, sem létta vinnuna og eru hættulausir. Þessi áhöld hafa verið kölluð Sigurjónskrókar, kenndir við Sigurjón járnsmið á Siglufirði, en hann smíðaði þá fyrstur hér á landi.“

 

Síldarminjasafn Íslands – ÖK og RMH 2009