Grána

Bræðsluhúsið Grána var byggt 1999-2000 – að mestu úr gömlum viðum fiskimjölsverksmiðjunnar Bein. Þar eru uppsettar vélar og tæki til að sýna íslensku síldarverksmiðjuna á árunum 1935-45. Lýst er framleiðsluferlinu frá því að síldin kemur inn í verksmiðjuna og þangað til dýrmætar afurðir, lýsi og mjöl, fara til frekari iðnaðar og landbúnaðar erlendis. Gránusýningin var opnuð formlega af Árna Matthíassen, staðgengli menntamálaráðherra, á „100 ára síldarsögu-hátíðinni" árið 2004. (sjá nánar um uppbyggingu Gránu).

Á Gránulofti er sýning um 100 ára sögu lýsis- og mjöliðnaðar á Íslandi, 1911-2011.
Í bakhúsi við Gránu, Njarðarskemmunni, er lager verksmiðjunnar og efnarannsóknastofa. Þar eru einnig staðsettar gamlar vélar til rafmagnsframleiðslu og vélaverkstæði með eldsmiðju.
„Rafstöðvarnar“ eru: Atlas-díselvél með rafali frá 1939, stór sænsk gufutúrbína frá 1946 og vatnsvél (túrbína) með rafali frá Hvanneyrarvirkjuninni 1913 – fyrstu rafstöð Siglfirðinga.

Síldarminjasafnið hlaut fyrir sýningarnar í Gránu og Róaldsbrakka Evrópsku safnaverðlaunin 2004, Michelettiverðlaunin, og var þá kjörið besta nýja iðnaðarsafn Evrópu.

Helstu áfangastaðir í bræðsluminjasýningunni:

  • Þrærnar. Í þrónni er síldin geymd áður en kemur til vinnslunnar.
  • Suðukarið. Í suðukarinu, sjóðaranum, er hráefnið soðið við mikinn gufuhita.
  • Ketilhúsið. Gufukatlarnir – fyrst kolakyntir, síðar olíukyntir. Þar er gufan framleidd, megin aflgjafi vinnslunnar.
  • Lýsishúsið. Skilvindurnar vinna lýsi úr blóðvatni þrónna og soðvökva frá sjóðara og pressum.
  • Pressuhúsið. Í pressunni þrýstist vökvinn úr soðmaukinu og fasta efnið, pressukakan, flyst til rífara og þaðan í þurrkarann.
  • Þurrkaraplássið. Ofn – eldhólf – kolakynt, síðar olíukynt. Hitagjafinn til þurrkunar mjöls.
  • Þurrkarinn. Hitinn berst frá eldofninum inn í þurrkarann og tætt pressukakan flyst eftir honum við hringsnúning og þornar á leið sinni í gegn.
  • Blásarinn dregur hita og raka úr þurrkaranum og skilar heitri gufunni út í reykháf.
  • Snigill og skúffutór flytja mjölið í kvörnina þar sem það er fínmalað.
  • Mjölhúsið.Að mjölvoginni berst mjölið með blásara eða snigli þar sem það er vigtað og sekkjað. Í mjölhúsinu eru sekkirnir geymdir í miklum stæðum þangað til kemur að útskipun.