Veltikrókar

Veltikrókar – stúkrókar, stúfkrókar eða snúningskrókar.

Krókarnir voru notaðir við að velta síldartunnum og snúa í pæklun og við útskipun (stúun) í lestum skipa. Þeir eru smíðaðir úr eins sm. gildum járnteinum.

Fjórar stærðir eru til af þessum krókum í Síldarminjasafninu og voru mismunandi lengdir krókleggjanna háðar mismunandi notkun. Guðlaugur Henriksen síldarsaltandi og heimildarmaður þessarar skráningar sagði að þeir á söltunarstöð Henriksens hefðu látið smíða í tilraunaskyni (um 1950?) lengstu krókana til að auðvelda þeim að snúa neðsta lagi í tunnustæðu – og þeir löngu krókar síðan orðið algeng verkfæri á síldarplönum.

Sennilega tengist veltikróksnafnið pæklun á síld. Tunnum í öðru og þriðja lagi var velt þegar pæklarar unnu sig í gegnum tunnustæður. Þá voru tunnurnar dregnar með krókunum og þeim velt yfir. Einnig kom fyrir að neðsta laginu væri snúið og þá með krókum af lengri gerðinni. Þá voru og þessi verkfæri notuð þegar tunnum var komið fyrir í geymslustæðum og þær hafðar “réttri stöðu” með tappann upp til pæklunar.

Stú- eða stúfkróksnafnið bendir til notkunar á þessu áhaldi við lestun skipa. Sögnin að stúa eða stúfa er komin úr norsku, at stuve og merkir að hlaða upp, t.d. að hlaða upp síldartunnum, hlaða í skipslest (sbr. Benedikt Sigurðsson – Orð úr máli síldarfólks). Stúarar voru þeir verkamenn (sbr. Stúarafélag Siglufjarðar) sem lestuðu og losuðu flutningaskip. Þegar kom að lestun á síldartunnum þá voru stúkrókarnir eitt mikilvægasta verkfærið. Til eru litlir krókar með örstuttum legg sem stúarar höfðu í greip sinni – mjög handhægir - og var krókurinn eins og sjötti fingurinn á hendi. Þannig unnu þeir við að koma tunnunum fyrir í “réttri stöðu” og botnarnir snéru rétt til að standast hið mikla álag margra tunnulaga í djúpum lestum.

Guðmundur Kristjánsson eldsmiður á Siglufirði smíðaði mikið magn þessara króka og seldi til söltunarstöðva.

 

Heimildir: Guðlaugur Henriksen samtal 1995. Benedikt Sigurðsson – Orð úr máli síldarfólks og Örlygur Kristfinnsson.

Síldarminjasafn Íslands ÖK og RMH 2009.