Svigatunna

Svigabent tunna. Fram að aldamótum 1900 voru nær allar tunnur svigabentar, þ.e. að í stað járngjarða voru notaðar klofnar trjágreinar, svigar, til að halda þeim saman. Eftir það fóru menn að nota járngjörð á þeim enda tunnunnar sem þurfti að opna. Ein endagjörð úr járni og svigar að öðru leyti – þeirrar gerðar er sú tunna sem er á hér myndinni.

Á öðrum og þriðja áratug 20. aldar voru báðar endagjarðirnar orðnar úr járni og eftir 1930 voru allar gjarðir, tvær endagjarðir og tvær búkgjarðir, gerðar úr járni.

Tvær svigabentar síldartunnur eru varðveittar á Síldarminjasafninu – auk hálftunnu undan beinakexi (enskt sjómannakex).

Benedikt Sigurðsson segir í samantekt sinni um tunnusmíði á Íslandi að tunnusvigi hafi verið innfluttur, efnið seigar viðartegundir, víðir eða selja. Hann segir ennfremur: ,,Ýmsar aðferðir voru notaðar við lokun svigagjarða. Búnar til sýlingar, áþekkar agnhaldi á öngli, nálægt svigaendunum, og þeim krækt saman. Stundum var sviginn þynntur og mjókkaður til endanna, þeim síðan smeygt undir vafningana og hert að með því að reka gjörðina.“ (Benedikt Sigurðsson – Samtíningur um tunnusmíði á Íslandi).

Talið er að Hollendingurinn Wilhelm Beukel hafi í lok 14. aldar fundið upp á því fyrstur manna að verka og varðveita síld í saltlegi (pækli) í tunnum.

 

Síldarminjasafn Íslands ÖK og RMH 2009