Drífholt
Drífholt er gamalt verkfæri og notað við tunnusmíði og ennfremur alla vinnu við trétunnur. Drífholtið hefur vart verið notað nema með díxli - og þannig hefur það verið um aldir. Neðsta hluta drífholtsins er haldið að tunnugjörðinni (ofan á gjarðarröðinni) og barið á með díxlinum. Þannig eru gjarðirnar reknar þétt að stöfum tunnunnar eftir að botninn er settur í hana - tunnunni lokað um leið og gjarðirnar eru reknar niður þá þéttist tunnan svo ekki leki. Talað var um að drífa síldartunnu og að herða gjörð að stöfum. Drífholtið hefur einnig verið nefnt gjarðadrífholt (sbr. Benedikt Sigurðsson - Orð úr máli síldarfólks).
Meginhluti drífholts er gerður úr tré – fyrir svigabentar tunnur er hann breiður og íhvolfur að neðan en mjókkar upp í skaft sem díxilmaðurinn heldur um. Þetta kallar Benedikt Sigurðsson bandadrífholt eða svigadrífholt (sbr. Orð úr máli síldarfólks). Á enda skaftsins er járnhringur til styrktar á móti díxilhögginu. Þegar járngjarðir komu til sögunnar var lítið járnstykki fest á íhvolfan neðanverðan hluta áhaldsins; járn skal á móti járni. Enn síðar var settur þar nokkurs konar járnrammi sem gerir það að verkum að í raun er sama á hvorn veginn áhaldinu er haldið að gjörðinni.
Stundum hefur verið litið á drífholtið og díxilinn sem tákn um vinnu karlmanna á hverri síldarsöltunarstöð. Mikill fjöldi þessara verkfæra er varðveittur á Síldarminjasafni Íslands.
Á myndinni eru þessar þrjár drífholtsgerðir sem lýst er hér að framan og er sú elsta til hægri. Í drífholtið í miðju er skorinn stafurinn T en áhaldið átti Tryggvi Flóvenz sem starfaði sem díxilmaður á söltunarstöð Skafta Stefánssonar, Nöf.
Orðið drífholt er tökuorð í íslensku rétt eins og díxilnafnið:
hollenska: drevel
þýska: treibholz
finnska: driivari
norska: drivholt
íslenska: drífholt
Sögnin at drive er þekkt á norsku og dönsku og merkir að reka (Benedikt Sigurðsson).
Benedikt Sigurðsson tók saman skrá um orðanotkun síldarfólks og þar segir um drífholt: ,,Nafn á áhaldi sem heitir á þýsku Treibholz og breytist í skandinaviskum málum í drivholt. Fyrri hluti orðsins er dreginn af þýska orðinu treiben = að reka eða knýja (drífa), en síðari hlutinn þýska orðinu holz, sem þýðir tré. Orðið þýðir því rekkubbur. Drífholt var upphaflega trékubbur sem notaður var við að reka og herða svigagjarðir á tunnum. Járnhólkur var settur á neðri enda drífholtsins þegar farið var að nota járngjarðir. Til voru drífholt með járnbryddingu öðrum megin. Mátti nota þau bæði á járngjarðir og svigagjarðir. “ (Orð úr máli síldarfólks).
Heimildir: Benedikt Sigurðsson ,,Orð úr máli síldarfólks“ og Örlygur Kristfinnsson.
Síldarminjasafn Íslands – ÖK og RMH 2009