Söltunarsýningar

Í rúm þrjátíu ár hefur Síldarminjasafnið sett upp söltunarsýningar – lengi var hefð fyrir því að salta á planinu við Róaldsbrakka alla laugardaga í júlí, en í seinni tíð fara slíkar sýningar fram allt sumarið, eftir bókunum ferðahópa. 

Síldarstúlkur staðarins salta í tunnur, sýna gömul vinnubrögð og vekja upp gamla andann af síldarplönunum, meðal annars með söng, dansi og bryggjuballi við harmonikuspil.

Sýningarnar hafa notið mikilla vinsælda meðal safngesta og ferðamanna. Undanfarin ár hafa verið settar upp allt að fimmtíu sýningar á hverju sumri. Allflestar fyrir erlenda ferðamenn sem fá sérstaka innsýn í sögu síldarinnar er þeir fylgjast með síldarstúlkunum hausskera og slógdraga síldina – og leggja svo niður í tunnur.