Slippurinn

Síldarminjasafnið eignaðist gamla Slippinn í mars 2012. Nokkru áður hafði sveitarfélagið Fjallabyggð keypt Slippinn og afhenti síðan safninu hann til eignar og afnota. Það er í senn sýningarstaður fyrir sögu skipasmíði á Siglufirði og verkstæði, lifandi vettvangur fyrir viðgerðir báta og nýsmíði.

Í Slippnum er að finna:

  • Sýningu um sögu bátasmíði á Siglufirði í 200 ár.
  • Gömul verkfæri og trésmíðavélar. Stór amerískur þykktarhefill og bandsög munu vera hart nær 100 ára gömul tæki og enn í notkun.


Dráttarbraut Siglufjarðar varð til um og eftir 1930. Vélknúin dráttarbraut mun hafa verið keypt frá Akureyri um 1930. Verkstæðishúsið er frá 1934 og er sennilega elsta og jafnvel eina smábátasmíðastöð landsins sem enn er til. Fyrirtækið, Skipasmíðastöð Siglufjarðar, tók til starfa 1944. Á árunum 1944-47 stóð ríkisstjórn Íslands fyrir endurnýjun íslenska bátaflotans í samvinnu við innlendar og erlendar skipasmíðastöðvar. Á Siglufirði voru þá smíðaðir tveir Nýsköpunarbátar eða „Ákabátar“ eins og þeir voru nefndir eftir ríkisstjórninni og Áka Jakobssyni, þáverandi atvinnumálaráðherra og þingmanni Siglfirðinga. Fjölmargir nótabátar munu hafa verið smíðaðir í Slippnum fram yfir 1955. Gunnar Jónsson skipasmíðameistari frá Akureyri starfaði í Slippnum fyrstu árin. Haraldur Gunnlaugsson skipasmiður stýrði bátasmíði þar frá 1936 til 1950. Hann var yfirsmiður Ákabátanna.

Siglufjarðarkaupstaður stóð fyrir endurnýjun Dráttarbrautarinnar 1950 og gátu þá þrjú 150-200 brl. skip fengið þjónustu þar samtímis. Nöfn starfsmanna á þessum árum eru m.a. Gunnar Jónsson, Sigurður Björnsson skipasmiður, Leó Jónsson og Jón Gunnlaugsson.


Sveinn Þorsteinsson við gömlu bandsögina

Byggingarfélagið Berg hf var stofnað af Birgi Guðlaugssyni og Þórarni Vilbergssyni árið 1962. Berg yfirtók Dráttarbraut Siglufjarðar með leigusamningi við Siglufjarðarkaupstað (líklega) árið 1969. Sveitarfélagið leysti fasteignina til sín árið 2011. Á Bergtímanum var mikil starfsemi í Slippnum vegna þjónustu við norðlenska bátaflotann. Iðulega voru um 50 bátar teknir upp í Slippinn árlega til viðgerða og viðhalds eða allt fram undir 1990. Einnig fór þar fram smíði á trillum og minni dekkbátum. Meðal bátasmiða þar auk Birgis og Þórarins voru Jón Björnsson og Vilhelm Friðriksson.