Síldarklippur
Síldarklippur, klippur, kverktöng (kverkunartöng), skæri eða kverkskæri.
Síldarklippur voru notaðar við kverkun síldarinnar. Klippunum var smeygt undir tálknin á
fiskinum, inn í kverkina, við hausinn á síldinni. Það var notað tvenns konar verkunarlag.
Stundum var svo mikil áta í síldinni að það varð að fjarlægja magann. Ef átustrengurinn í
maganum var meiri en svaraði grönnum blýanti þá var talið nauðsynlegt að fjarlægja hann. Það var miklu fljótlegra að skera hausinn af síldinni og slógdraga hana svoleiðis. En konur sem voru mjög fljótar í síld þær töfðust ekkert við að kverka og slógdraga, þær náðu einhverju sérstöku verklagi sem þær beyttu og voru ótrúlega fljótar að því. Þær gátu gert þetta í einu handtaki, klippt á kverkina og dregið innan úr. Restin af tálknunum er föst við efra kviðaropið og því var hægt að kippa þessu öllu saman úr í einu handtaki. Það varð að gæta að því að klemma ekki klippurnar alveg saman (viðtal við Hannes Baldvinsson 6. október 2009).
Ef matsmaðurinn var ekki búin að ákveða í hvað síldin var verkuð kallaði ræsarinn: ,,síld, síld, allar græjur“ og það þýddi að það átti að koma með klippur og hníf og disk til að dreyfa saltinu yfir (viðtal við Hannes Baldvinsson 6. október 2009).
Í Handbók síldarverkunarmanna sem Magnús Vagnsson tók saman árið 1939 segir höfundur svo frá: ,,Kverkuð saltsíld, sem er elsta framleiðslugrein okkar í síldarverkun, hefir nú verið stunduð hér nyrðra og eystra síðan um og fyrir aldamót.“ (Magnús Vagnsson, 1939: 99).
Magnús lýsir verklaginu við að kverka síld á eftirfarandi hátt: ,,Áður en matjessíld kom til sögunnar, var aðalgallinn, að of grunnt var klipið og stundum of aftarlega. Síðan slógdráttur æfðist, er nú algengt að sjá kverkina tekna svo djúpt, að innýflin liggja úti, og er ljótt að sjá.
Kverkina á að taka svo djúpt, að kverksiginn og uggarnir fari alveg; það er nóg op fyrir blóðið að renna út um og pækilinn inn um, dýpra er óþarfi að fara, enda má það ekki. Líta verður vel eftir, að ekki sé klipið fyrir aftan eða framan kverksigann og uggana, það er til lýta og ógagns. Varst skal líka að rífa síldina (bitlaus skæri), eða láta kverksiga hanga við.“ (Magnús Vagnsson, 1939:99). Magnús leggur áherslu á að skærin þurfi að bíta vel, sérstaklega kjálkar skæranna, því síldin
mátti ekki rifna við slógdráttinn, hvorki kviður né haus (Magnús Vagnsson, 1939: 51).
Magnús segir að rétta takið við slógdrátt sé þannig að þumalfingur vinstri handar styðji á hægri hlið síldarinnar, kviðmegin við hrygginn og eins framarlega og hægt er. Hinir fingurnir halda svo á móti, eins framarlega og unnt er. ,,Sé haldið rétt á síldinni og tekið mátulega djúpt og rétt með skærunum, má oft takast að ná öllu saman, kverk, tálkni og innýflum, með einu handbragði, og á alls ekki að þurfa fleiri en tvö.“ (Magnús Vagnsson, 1939: 51). Magnús segir að rétt sé að halla skærunum dálítið aftur á við, og grípa með þeim fast upp að hryggnum, án þess að hálsvöðvarnir skaddist. Oddur skæranna átti að grípa um tálknið, og bugðan á skærunum um magaopið. Kjálkarnir áttu að klippa sundur kviðinn frá hrygg og út úr, fyrir aftan eyruggabeinið. ,,Um leið og skærunum er klipið fast saman, eru þau hreyfð fram á við (eins og þau væru vogstöng með hvílipunkt í bugðunni), við það losnar stykkið, sem skærin grípa um og nú er linað á takinu, sem vinstrihandar fingur halda um kvið síldarinnar, svo að þeir hindri ekki , að innýflin geti dregist liðlega út; síldinni er hallað svo að hausinn viti á ská niður, og tálk og slóg er dregið liðlega fram úr síldinni.“ (Magnús Vagnsson, 1939: 51).
Benedikt Sigurðsson segir frá kverkun í samantekt sinni Orð úr máli síldarfólks: ,,Kverkun. Aðferð við síldarsöltun. Gert var v-laga skarð í kverk síldarinnar, neðan við tálknin, með kverkunarhníf eða síldarklippum.“
Magnús Vagnsson nefnir áhaldið greinilega skæri, en Benedikt Sigurðsson talar um síldarklippur. Heimildamaður okkar, Kristján S. Guðmundsson, sem var á síldveiðum fyrir norðurlandi 1949, segir að það hafi ýmist verið talað um klippur, kverktöng eða kverkskæri. Eldra heimildafólk okkar á Siglufirði segir að orðið klippur eða síldarklippur hafi verið notað um þetta verkfæri en yngri Siglfirðingar tala um kverktöng eða kverkunartöng.
Heimildir: Tölvupóstur frá Kristjáni S. Guðmundssyni (ksg@centrum.is) 7. október 2009
Magnús Vagnsson. 1939. Handbók síldarverkunarmanna.
Viðtal við Hólmfríði Steinþórsdóttur 5. nóvember 2009 og viðtal við Hannes Baldvinsson 6. október 2009.