Söfnunarstefna


1. Kynning safnsins.

1.1  Yfirlit yfir sögu safnsins

  • Byggðasafnstjórn kosin af bæjarstjórn 1958-1989. Nokkur söfnun muna um 1960.
  • Frosti F. Jóhannsson fenginn til að safna gömlum gripum með áherslu á     síldarminjar 1976-1979.
  • Árið 1978 þrjú hús friðuð, Róaldsbrakki, Norska  sjómannaheimilið, og Sæbyhús.
  • FÁUM-Félag áhugamanna um minjasafn- stofnað í september 1989. Samningur við Siglufjarðarkaupstað um ráðstöfun, eignarhald o.fl. Söfnun muna hafin á nýjan leik.
  • Bráðabirgðasafn opnað til sýningar 20. maí 1991 að Suðurgötu 46.
  • Viðgerð Róaldsbrakka hafin 1991.
  • Síldarminjasafnið opnað á neðstu hæð brakkans við hátíðlega athöfn 9. júlí 1994. Einnig sýning á margskonar tækjum í Vélasal frá 1928. Endurbótum á Róaldsbrakka lokið að mestu 1996, safn á öllum hæðum.
  • Bræðsluminjahúsið, Grána, (sýningarhús á safnlóð) byggt 1998-2000.
  • Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin 2000, áður  heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs 1999 og nýsköpunarverðlaun Ferðamálaráðs 1998.
  • Hafin bygging stórrar bátaskemmu 2001.
  • Síldarminjasafnið tilnefnt af Safnaráði til Evrópsku safnverðlaunanna í mars 2003.
  • Síldarminjasafnið hlýtur Evrópsku safnverðlaunin 2004 – Michelettiverðlaunin á sviði iðnaðar og tækni.
  • Bátahús Síldarminjasafnsins vígt þann 29. júní af Hákoni krónprinsi Noregs á 100 ára afmæli síldarævintýris Íslendinga.
  • Síldarminjasafn Íslands, sjálfseignarstofnun, stofnað 16. apríl 2006. Stofnendur FÁUM-Fél. áhugam. um minjasafn og Siglufjarðarkaupstaður.

1.2   Húsakostur

  • Róaldsbrakki, norskt síldarhús frá 1907. Friðað 1977. Gamla söltunarstöðin með sýningu um sögu síldarsöltunar.
  • Bátahúsið, byggt 2004. Sýningarhús fyrir báta og skip, veiðarfæri og ýmsa bryggjugripi.
  • Grána, byggð 1999 við Njarðarskemmu, lagerhús frá 1930. Sýningarhús fyrir sögu síldarbræðslunnar á Íslandi.
  • Ásgeirsskemma, geymsluhús keypt af Siglufj.kaupstað og afhent safninu árið 1993.
  • Vélarsalur, núverandi verkstæði safnsins.
  • Vetrarbraut 19, hús Jóhanns Andréssonar, keypt 1997. Fullbúið íbúðarhús og vélaverkstæði frá fyrri hluta 20. aldar.
  • Hlíðarhús, heimili Snorra Stefánssonar og fjölskyldu við Háveg 60. Anna Snorradóttir afhenti safninu í apríl 2010.

  • Slippurinn gamli við Tjarnargötu – Fjallabyggð afhenti í mars  2012.


2. Safnið

2.1
  Markmið (sbr. skipulagsskrá)
Markmið Síldarminjasafns Íslands er að safna,  skrá, varðveita og sýna muni og minjar sem hafa gildi fyrir sögu síldarútvegs og síldarvinnslu á Íslandi. Áhersla skal lögð á hina margvíslegu starfshætti og þróun þeirra. Síldarbrakkinn og bryggjan eru þar mikilvægur vettvangur og skal m.a. sýna hvernig aðbúnaður verkafólks var í brökkunum.

Þá skal bræðsluminjum gerð góð skil ásamt þeirri verk- og vélmenningu sem þróaðist í kringum veiðar og vinnslu síldarinnar. Þessum markmiðum skal náð með sýningum og fræðslu fyrir almenning í sérstakri samvinnu við skóla. Safnið skal vera opið yfir sumarmánuðina og eftir þörfum á öðrum árstímum.

2.2  Söfnunarsvæði
Söfnunarsvæðið er allt Ísland og þar sem það skarast við söfnunarsvæði annarra safna skal hafa í heiðri siðareglur ICOM – Alþjóðaráðs safna.* Hafa skal samstarf og samráð við önnur söfn, eftir því sem við á, um söfnun, varðveislu og rannsóknir.

Í kafla 3.4 í prentuðum siðareglum ICOM, útg. 1994, er til dæmis fjallað um að sérhvert safn skuli hafa samvinnu við önnur söfn með sömu eða svipuð söfnunarsvið og söfnunarstefnu. Einnig að söfn virði söfnunarsvið og svæði hvers annars og öflun safngripa verði í sumum tilvikum að vera  í samráði við önnur söfn.

2.3  Söfnunarsvið, sýningar
Söltunin. Meginsýning Síldarminjasafnsins í Róaldsbrakka er um störfin á söltunarstöðinni, aðbúnað síldarfólksins og hið fjölbreytilega hlutverk síldarbrakkans. Að miklu leyti er brakkinn sýndur eins og hann var notaður. Auk þess eru sérsýningar á miðhæðinni um líffræði síldarinnar, sögu síldveiða hjá öðrum Evrópuþjóðum, íslensku síldarbæina, markaðsmál og margt fleira. Á síldarplaninu framan við brakkann er allt tilbúið til söltunar og þar fara vinnusýningar fram á sumrin.

Bræðsluiðnaður. Í Gránu sem byggð er við Njarðarskemmu er sýning um sögu síldarverksmiðjanna.

Veiðarnar. Í Bátahúsinu eru síldarskipið, nótabátar og veiðarfæri sýnd.

Frystiiðnaður. Í Vélasal er stefnt að sýningu á gripum sem tengjast frystingu síldar. Þar verður komið fyrir gömlum tækjabúnaði fyrir síldarfrystingu.

Hversdagslífið. Hús Jóhanns Andréssonar sýnt sem heimili og vinnustaður venjulegrar fjölskyldu í síldarbænum.

3. Söfnunarstefna
Síldarminjasafnið leggur megináherslu á að safna úr eftirtöldum flokkum og er þeim raðað eftir mikilvægi.

3.1 Atvinnuhættir, starfsgreinar
Síldveiðar. Safnað er öllu sem við kemur síldveiðum og mismunandi veiðiaðferðum. Landnótaveiðar, rekneta- og lagnetaveiðar, snurpinóta- og hringnótaveiðar. Áhersla skal einnig lögð á alla tækniþróun viðkomandi veiðunum sbr. fiskisjá og kraftblökk. Þá skal safna bátum þeim sem fáanlegir eru og mögulegt er að varðveita og teljast mikilvægir fyrir síldarsöguna. Allur aukabúnaður, stórir sem smáir gripir sem tengjast veiðunum, skal varðveittur.

Í þessum kafla er vert að nefna muni sem snerta bátasmíði, bryggjusmíði og netagerð.

Síldarsöltun. Safnað er öllu sem tengist söltun, verkun og sölu- og markaðsmálum saltsíldarinnar. Þar er allt jafn mikilvægt, verkfæri sem pappírsgögn. Þessu nátengt er allt sem við kemur aðbúnaði og veru síldarfólksins í síldarbrökkunum.

Mikilvæg er saga söltunarstöðvanna í landinu, Síldarútvegsnefndar og Síldarmats ríkisins.

 

Bræðsluiðnaðurinn. Safnað er öllu sem telja má mikilvægt til að sýna ferlið í síldarverksmiðjunnni, allt frá löndun og til útflutnings á mjöli og lýsi. Rekstur síldarverksmiðjanna var margþættur og mikilvægt að safna munum sem tengjast sem flestum hliðum hans t.d. skrifstofuhaldi, efnarannsóknum og störfum vélvirkja. Mikilvæg er saga síldar-verksmiðjanna vítt og breitt um landið.

 

Tunnusmíði og beykisiðn. Safnað er munum frá þessum iðngreinum.

 

Iðnaður, úrvinnsla. Safnað er munum frá lagmetisiðnaði víða að af landinu. Aðrar iðngreinar eru t.d. reyking síldar, gerð skrautgripa úr síldarhreistri o.fl.

 

Líffræði og síldarrannsóknir. Safnað munum sem tengjast störfum Atvinnudeildar Háskólans og Hafrannsóknarstofnunar Íslands.

 

Áhrif Norðmanna og síldarsagan austan hafs og vestan. Mikilvægt að safna gögnum um síldveiðar Norðmanna hér við land og almennt um sögu síldveiðar margra annarra þjóða.

-

Öryggis- og fjarskiptamál. Munum safnað sem snerta sögu Siglufjarðar-radíós og öryggismála sjómanna almennt og er vert að nefna í því sambandi samstarf við önnur söfn eða stofnanir.

 

Verslun og viðskipti Safnað er öllu því er lýtur að verslun með veiðarfæri og búnað til  hinnar fjölbreytilegustu síldarvinnu.

 

Smáiðnaður og almenn störf. Vert er að safna munum sem koma við sögu í almennum þjónustustörfum í síldarbænum. Þar má nefna verslun, trésmíðar, skósmíði og ljósmyndun.

 

Smábátaútgerð. Safnað er munum frá trilluútgerð enda voru fiskveiðar meðal hliðarstarfa síldarverkamanna.

 

3.2 Ljósmyndir
Safnað er ljósmyndum af öllu sem viðkemur síldarsögunni fyrr og síðar. Sérstaklega er safnað myndaflokkum frá einstökum ljósmyndurum eða frá fyrirtækjum s.s. söltunarstöðvum. Æskilegt að stefna að samvinnu við Bókasafn Fjallabyggðar um söfnun og varðveislu siglfirskra ljósmynda.

3.2 Kvikmyndir
Allmikið er til af gömlum kvikmyndum frá 20. öld sem sýna síldveiðar og síldarvinnu í landi. Mikilvægt er að Síldarminjasafnið eigi afrit slíkra mynda og eigi góða samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands.

3.3 Skjöl
Safnað er skjölum og pappírsgögnum sem teljast hafa þýðingu fyrir sögu útgerðar síldarskipa, reksturs síldarfyrirtækja og annarrar þeirrar starfsemi sem snertir á einhvern hátt síldarsöguna.

3.4 Myndlist og tónlist 
Menningin og liststarfsemi var samgróin hinu litríka mannlífi síldarbæjanna. Síldarvinnan og “mótíf” úr síldarbænum hefur verið viðfangsefni margra íslenskra myndlistarmanna. Safnað er slíkum málverkum eða eftirmyndum þeirra. Vert er að safna hljóðupptökum af síldarmúsíkinni eins og  hún gerðist um miðbik 20. aldar.

3.5 Bækur og skáldskapur
Safnað er sagnfræðiritum, ævisögum og öðrum verkum þar sem síldveiðar og síldarfólkið í leik og starfi koma fyrir í skáldskap og bókmenntum. Samvinna æskileg við Bókasafn Fjallabyggðar.

3.6  Heimilishald
Undirflokkur safngripa í safninu eru munir sem eru frá almennu heimilishaldi og hversdagslífi í síldarbænum fram yfir miðja 20. öld.      

3.7 Híbýlahættir
Æskilegt er að Síldarminjasafnið hafi afskipti af verndun gamalla húsa á safnsvæði sínu, húsa sem  tengjast síldarsögunni og þróun síldarbæjarins.

3.8 Tómstundastörf, menningarlíf
Safnið getur haft samstarf við aðra aðila um söfnun á munum og gögnum sem tengjast íþróttum, tómstundastörfum og menningarlífi íbúa síldarbæjarins. Siglufjörður er frægur fyrir síld á sumrin og snjó á vetrum eins og stóð í skólabókum áður fyrr. Seint verður skilið á milli hins mikla athafnalífs í kringum síldina og hversdagslífs fólksins í bænum.  Á vetrum þegar síldin var fjarri og beðið var næsta síldarsumars blómstraði hið fjölbreytilegasta menningarlíf og gerðu Siglfirðingar garðinn frægan sem afreksmenn í skíðaíþróttum og tónlistarlífi.

3.9 Fornleifar
Fátt er um eiginlegar fornleifar sem tengjast síldarsögunni en vert er að forráðamenn safnsins séu vakandi gagnvart slíkum minjum á landinu og stuðla að skráningu og rannsókn þeirra. Sérstaklega má nefna skipsflök sem liggja á sjávarbotni t.d hákarlaskipið Lati-Brúnn Siglufirði sem síðar var notaður til síldveiða.

3.10 Flokkar utan söfnunarstefnu safnsins
Vert er að hafa góða samvinnu við önnur söfn og stofnanir um söfnun og varðveislu muna og minja. Af söfnum má nefna Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, Byggðasafn Skagafjarðar og Minjasafnið á Akureyri. Þá er og mikilvæg samvinna við gamlar og grónar siglfirskar stofnanir eins og Grunnskólann, Siglufjarðarkirkju og Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar en hjá þessum stofnununum hefur áhugi  aukist á varðveislu og sýningu sögulegra muna.      

3.11 Aðferðir til söfnunar 
Safnið tekur á móti gripum sem vert er að varðveita, auglýsir eftir og safnar munum sem falla undir söfnunarstefnu safnsins. Safnið getur keypt muni ef stjórn safnsins samþykkir kaupin.

3.12 Móttaka gripa
Kvittun er gefin við afhendingu safngrips, undirrituð af þeim er afhendir eða starfsmanni safnsins.

Þegar tekið er við grip er hann hreinsaður varlega, skráður og búið um hann til geymslu eða sýningar. Safnstjóri skal hafa í huga að hægt er að ráðfæra sig við forverði Þjóðminjasafns Íslands og ber að gera það undantekningarlaust ef vafaatriði koma upp um snyrtingu/lagfæringu á safngrip. Ef safnið getur ekki varðveitt grip í þeim húsakynnum sem það hefur yfir að ráða, skal afþakka hann og benda á annað safn eða koma honum fyrir á öruggum stað, með sérstökum skriflegum samningi, þangað til safnið getur tekið hann í sína vörslu.

3.13 Grisjun
Erfitt er að farga grip sem einu sinni hefur verið skráður í safnið og verður það ekki gert nema í undantekningartilfellum, vegna skemmda, ef gripur reynist falsaður, ef safnstjóri telur hann betur kominn á öðru safni, eða ef hann samrýmist ekki söfnunarstefnu og telst ekki varðveisluverður. Ef nauðsyn ber til skal leita ráða fagfólks utan safnsins áður en ákvörðun er tekin.

3.14 Millisafnalán
Safnið getur lánað muni til sýninga eða rannsókna til annarra safna með samningum sem báðir aðiljar samþykkja. Þar koma fram ákvæði um lánstíma og hvernig meðhöndla eigi munina. 

4.  Sýningarstefna
Sýningar safnsins tengjast söfnunarstefnu þess. Núverandi sýningar eru unnar út frá efni sem mest áhersla er lögð á í söfnun, svo sem veiðum og margskonar vinnslu síldar. Gera má ráð fyrir að sýningar vaxi að umfangi.