Skipulagsskrá

SKIPULAGSSKRÁ fyrir
Síldarminjasafn Íslands ses.

1.gr.
Heiti
Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Síldarminjasafn Íslands.

2. gr.
Heimili
Heimilisfang sjálfseignarstofnunarinnar er Snorragata 10, Siglufjörður.

3.gr.
Tilgangur og starfsemi

Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að annast um og reka Síldarminjasafn Íslands. Það er einnig tilgangur stofnunarinnar að hafa umsjón með söfnun og tryggja eftir föngum varðveislu menningarsögulegra minja, tengdum síldveiðum og iðnaði, í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar að þeim og sögu síldveiða, auk þess að greiða fyrir rannsóknum á menningarsögulegum minjum tengdum síldveiðum.

4.gr.
Stofnendur

Stofnendur stofnunarinnar eru Félag áhugamanna um minjasafn, kt. 470492-2019, Suðurgötu 46, Siglufirði, hér eftir nefnt FÁUM og Siglufjarðarkaupstaður, kt. 560269-1969, Gránugötu 24, Siglufirði. Hvor stofnenda leggur fram hús þau og allar eignir sem hafa talist til Síldarminjasafnsins

5. gr.
Framlag stofnenda

FÁUM leggur fram eftirtaldar eignir: Bátahúsið að Snorragötu 10, Njarðarskemmu að Snorragötu 12, Gránu, bræðsluskemmu, Snorragötu 12 og íbúðarhús að Vetrarbraut 19. Samtals að verðmæti samkvæmt fasteignamati 31. desember 2005 er 42.164.000,00 krónur.

Siglufjarðarkaupstaður leggur fram þessar eignir: Róaldsbrakka, bryggju og lóð að Snorragötu 16, Ásgeirsskemma, Vélasalur og lóð að Snorragötu 18, ásamt með lóðunum Snorragötu 10, 12, 14 og 20. Samtals að verðmæti samkvæmt fasteignamati 31. desember 2005 er 18.861.000,00 kr.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.

6. gr.
Yfirtaka á réttindum og skyldum stofnenda

Stofnendur munu afhenda Síldarminjasafni Íslands ses. fasteignir og lausafé sem mynda Síldarminjasafn Íslands í dag, til eignar, varðveislu og áframhaldandi reksturs og uppbyggingar. Síldarminjasafn Íslands ses. mun taka við þessum eignum með þeim réttindum og skyldum sem þeim fylgja frá og með 1. janúar 2006 og jafnframt yfirtaka þær skuldir og skyldur sem þeim tengjast. Frá sama tíma mun Síldarminjasafn Íslands ses. njóta arðs af eignum þessum og greiða skatta og skyldur vegna þeirra.

7.gr.
Stjórn.
Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Stjórnin skal valin til þriggja ára í senn. Fyrsta kjörtímabil nýrrar stjórnar skal þó hefjast þann 29. janúar 2006 og lýkur með tilkynningu um val á stjórn á ársfundi stofnunarinnar árið 2009.

Stjórn stofnunarinnar skal valin af stofnendum þannig að sveitarfélagið Fjallabyggð velur einn stjórnarmann og annan til vara. FÁUM skal velja einn stjórnarmann og annan til vara. Þriðji stjórnarmaðurinn og varamaður hans, skal valinn eftir tilnefningu frá safnstjóra. Þjóðminjavörður tilnefnir áheyrnarfulltrúa. Verði félagið FÁUM lagt niður, því breytt þannig að það hætti að vera bakhjarl stofnunarinnar, eða sinni það ekki skyldu sinni til þess að velja nýja stjórnarmenn innan 30 daga frá því að kjörtímabili stjórnar lýkur, skal sveitarfélagið Fjallabyggð velja þann stjórnarmann og varamann hans.

Stjórnarmaður getur hvenær sem hann óskar látið af stjórnarstörfum. Láti stjórnarmaður af stjórnarstörfum tekur varamaður sem tilnefndur var af sama aðila og viðkomandi stjórnarmaður, sæti hans í stjórn. Skal þá nýr varamaður valinn í stjórn með sama hætti og greinir í 1. mgr. Stofnendur geta hvenær sem er innan kjörtímabils afturkallað val á stjórnarmanni og varamanni, og valið annan aðila í stað viðkomandi, sem frá þeim tíma tekur við réttindum og skyldum þess stjórnarmanns/varamanns sem hann er valinn fyrir.

Fyrsta stjórn Síldarminjasafn Íslands ses. skal valin á stofnfundi.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en valinn skal formaður stjórnar úr hópi stjórnarmanna. Sé framkvæmdastjóri jafnframt stjórnarmaður má hann ekki vera formaður stjórnar. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi stofnunarinnar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.

Þóknun til stjórnarmanna skal ákveðin á ársfundi félagsins.

8. gr.
Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda. Sama rétt á framkvæmdastjóri. Boða skal til stjórnarfunda með tryggilegum hætti. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Aðalatriði þess sem fram fer á stjórnarfundum skal færa til bókar. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef það málefni sem fyrir liggur til ákvörðunar skiptir hann verulegu máli fjárhagslega eða siðferðilega.

9. gr.
Framkvæmdastjóri

Stjórn stofnunarinnar ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald, gerð rekstraráætlunar og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

10. gr.
Fjáröflun.

Stofnunin veitir viðtöku styrkjum og öðrum fjárframlögum til starfsemi sinnar. Henni er óheimilt að taka lán án samþykkis stofnenda.

11. gr.
Val endurskoðenda

Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur (eða endurskoðendafélög) ásamt varamönnum til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

12. gr.
Reikningsárið

Starfsár og reikningsár stofnunarinnar skal vera almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 31. mars ár hvert. Endurskoðun reikninga skal lokið fyrir maílok ár hvert.

13. gr.
Ársfundur

Stjórnin skal halda ársfund þar sem reikningar og starfsemi Síldarminjasafnsins frá fyrra ári er kynnt sérstaklega fyrir félagsmönnum FÁUM og bæjarstjórn Fjallabyggðar, en ársfundurinn skal vera öllum opinn sem hann vilja sækja. Á ársfundi skal jafnframt tilkynnt um val á stjórnarmönnum sé kjörtímabil þeirra á enda. Ársfundur er upplýsingafundur og hefur fundurinn ekki ákvörðunarvald á starfsemi stofnunarinnar. Samþykktir ársfundar fela aðeins í sér tilmæli til stjórnar stofnunarinnar og eru ekki bindandi. Ársfundurinn skal haldinn fyrir júnílok ár hvert.

Stjórn Síldarminjasafnsins skal skylt að veita stofnendum sérstaka skýrslu eða skýringar varðandi einstaka þætti starfseminnar samkvæmt beiðni þar um og svara þeim fyrirspurnum sem að henni er beint frá þessum aðilum, eftir því sem unnt er.

14. gr.
Ráðstöfun eigna og hagnaðar

Hagnaður af starfsemi stofnunarinnar skal renna til hennar sjálfrar í þau verkefni sem greinir í 3. gr. samþykkta þessara. Þó er stjórn hennar heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.
Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

15. gr.
Breyting á skipulagsskrá.

Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari með samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar. Til að auka skuldbindingar stofnenda þarf samþykki þeirra.

16. gr.
Slit stofnunarinnar.

Með tillögum um slit og skipti á stofnuninni skulu fara fram breytingar á skipulagsskrá þessari skv. 15. gr. Komi til þess að stofnunin verði lögð niður skal ráðstafa safnkosti í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og öðrum eignum í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

17. gr.
Reikningar.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skal ganga frá reikningum stofnunarinnar fyrir 1. júní ár hvert. Þeir skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem stjórn stofnunarinnar ræður til eins árs í senn.

18. gr.
Lagaumhverfi

Síldarminjasafn Íslands ses starfar eftir gildandi safnalögum – og öðrum þeim lögum er gilda um starfsemi þess. Auk þess starfar það eftir alþjóðlegum siðareglum ICOM.

 

Annað
Þar sem ákvæði skipulagsskrár þessarar ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Þannig samþykkt á stofnfundi Síldarminjasafns Íslands ses., þann 1. janúar 2006.

Breytingar á skipulagsskrá:

  • 18. grein bætt við skv. beiðni frá Safnaráði þann 1. september 2010.
  • 14. gr., 16. gr. og 18. gr. endurskoðaðar skv. beiðni frá Safnaráði þann 3. sept. 2013.
  • 7. gr. breytt skv.beiðni þjóðminjavarðar þann 10. maí 2020.


Undirskrift stjórnar

Guðmundur Skarphéðinsson, formaður stjórnar 
Ágúst Ó. Georgsson, fulltrúi þjóðminjavarðar 
Ólafur Stefánsson, fulltrúi Fjallabyggðar

Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands