Afturgöngur og uppvakningar í draugaverksmiðjunni Gránu
Frá því í byrjun skólaárs hefur Síldarminjasafnið sinnt skipulagðri kennslu meðal barna í 5. bekk og unglinga á elsta stigi í Grunnskóla Fjallabyggðar. Námskeiðið miðar að því að fræða nemendur um hlutverk safna, skyldur þeirra og verkefni. Þannig fá nemendur innsýn í grunnstoðir safnastarfs sem felast í rannsóknum, söfnun, varðveislu, skráningu og miðlun og fá jafnframt að takast á við ólíkar áskoranir og verkefni.
Eitt af verkefnum vetrarins var að rannsaka sögu hrekkjavökunnar, sem reynist eiga sér dýpri rætur í íslenskri sögu en virðist við fyrstu sýn. Hátíðin á raunar upphaf sitt að rekja til heiðinnar hausthátíðar sem Keltar héldu hátíðlega til þess að færa þakkir fyrir uppskeru sumarsins og bjóða veturinn velkominn. Hrekkjavaka, eða Veturnætur, voru þannig í upphafi einskonar blót þar sem tekið var á móti vetrinum – en við þessi umskipti árstíða voru menn taldir geta skynjað handanheima; séð drauga, álfa og aðrar vættir og jafnvel spáð til um framtíðina.
Nemendur fengu færi á að takast á við skipulag og undirbúning hrekkjavökuhátíðar á safninu – þar sem markmiðið var að miðla þeim fróðleik sem þau höfðu viðað að sér, og svo vissulega að skemmta sér og öðrum.
Upphaflega var stefnt að því að viðburðurinn yrði öllum opinn og umfangsmikill. En sökum sóttvarnarreglna varð að miða skipulagið við þær reglur sem í gildi voru í októberlok. Í samráði við skólastjórnendur var ákveðið að viðburðurinn færi fram á skólatíma til þess að virða mætti fjöldatakmarkanir bæði barna og fullorðinna.
Nemendur 5. bekkjar buðu samnemendum sínum í 1. – 4. bekk að heimsækja Gránu, sem breytt hafði verið í sannkallaða draugaverksmiðju. Til þess að gera daginn enn gleðilegri og skemmtilegri léku nýkrýndir sigurvegarar Söngvakeppni Framhaldsskólanna fyrir söng og dansi.
Þegar fjörinu í Gránu lauk, rétt fyrir hádegi þann 30. október, tók við blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar þar sem tilkynnt var að hertari aðgerðir tækju gildi á miðnætti þann sama dag. Af þeim sökum varð að aflýsa viðburðinum sem skipulagður hafði verið af nemendum í 8. og 9. bekk fyrir samnemendur þeirra í 6. – 10. bekk og átti að fara fram á safninu næsta dag, laugardaginn 31. október. Stefnt er að því að halda þann viðburð þegar fram líða stundir og aðstæður leyfa.
Gunnlaugur Stefán Guðleifsson tók bæði ljósmyndir og kvikmyndaði stemninguna í draugaverksmiðjunni Gránu þegar nemendur í 1. – 4. bekk heimsóttu þá veröld sem skólafélagar þeirra í 5. bekk höfðu skipulagt og undirbúið. Skólastjórnendur hvöttu alla nemendur skólans til að mæta í búningum og dulargervum í tilefni dagsins og var því sannarlega um kærkomið uppbrot að ræða og var stutt á milli skelfingar og gleði - sem skein úr hverju andliti, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Fréttir
- Eldri frétt
- Nýrri frétt