Fréttir

Alþjóðlegt þing sjóminjasafna

16. sep. 2019

Safnstjóri Síldarminjasafnsins er nú staddur í Stokkhólmi, en þar fer fram alþjóðlegt þing sjóminjasafna (e. International Congress of Maritime Museums). Síldarminjasafnið gekk til liðs við samtökin á síðasta ári og hlaut frá þeim styrk til þátttöku í þinginu sem er að þessu sinni skipulagt af Sænska sjóminjasafninu, Vasa safninu og Sjóminjasafninu í Maríuhöfn á Álandseyjum. Dagskráin fer fram bæði í Stokkhólmi og Maríuhöfn og stendur yfir í sex daga. Á þinginu koma saman starfsmenn sjóminjasafna frá öllum heimshornum til að ræða sameiginleg hagsmunamál, viðfangsefni og áskoranir. Alls taka 105 fulltrúar frá 29 löndum þátt í þinginu.

Dagskráin hófst með siglingu um sænska skerjagarðinn á gufuskipinu Mariefred frá árinu 1903. Siglt var yfir fjölda skipsflaka sem liggja á botni Skerjagarðsins á meðan fornleifafræðingar Vasa safnsins greindu frá rannsóknum sínum, köfunarleiðangrum og þeim 100.000 skipsflökum sem varðveitast við einstök skilyrði í súrefnislitlu Eystrasaltinu.

Næstu daga fara fram bæði fyrirlestrar og vinnustofur þar sem rædd verða fjölbreytt málefni er snúa að varðveislu, rannsóknum, samstarfi og miðlun. Það eru því spennandi dagar framundan í Stokkhólmi og Maríuhöfn. 

Fréttir