Fréttir

Bátasmíðanámskeið 2023

8. sep. 2023

Staðsetning: Gamli Slippurinn, Siglufirði
Tími: 25. – 29. september 2023
Fjöldi: 10 nemendur að hámarki
Verð: Ekkert námskeiðsgjald. Uppihald á eigin kostnað.
Umsóknarfrestur: 15. september 2023
Skráning: anita@sild.is / 467 1604 

Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta vikuna 25. – 29. september nk. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Kennsla verður í höndum Hafliða Aðalsteinssonar og Einars Jóhanns Lárussonar.
Hafliði er bátasmiður og heiðursiðnaðarmaður ársins 2020 og hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Einar Jóhann hefur nýlega lokið sveinsprófi sínu í tréskipasmíði og hefur starfað með Hafliða og á Síldarminjasafni Íslands.

Námskeiðið fer fram með þeim hætti að unnið er alla daga, frá mánudegi til föstudags, frá 8:00 – 16:00. Nemendur taka fullan þátt í smíði og annarri vinnu undir handleiðslu kennara.

Gamli Slippurinn er verkstæði frá árinu 1934 sem komst í eigu Síldarminjasafnsins árið 2011. Þar er að finna gömul verkfæri og trésmíðavélar til bátasmíða sem nemendur notast við á meðan námskeiðinu stendur. Sem dæmi má nefna stóran amerískan þykktarhefil og bandsög sem eru orðin hundrað ára gömul, og enn í notkun.

Viðfangsefni námskeiðsins verða fjölbreytt. Unnið verður að:

  • Nýsmíði á eftirmynd Hindisvíkurbátsins, ferærings frá 1876. Unnið verður að áframhaldandi smíði byrðingsins, en þegar hefur kjölurinn verið lagður og fyrstu tvö umförin.
  • Viðgerð Gunnhildar ÓF18 sem er 2 brl. afturbyggður súðbyrðingur úr furu og eik. Skipta þarf um bönd og smíða nýjan borðstokk.
  • Viðgerð færeysks súðbyrðings úr furu og eik, frá því um miðja 20. öld. Ástand hans er nokkuð slæmt og þarfnast hann viðgerða á byrðingi, borðstokki, þóftum, kollhörðum ofl.

Meðal markmiða Síldarminjasafnsins er að standa vörð um forna þekkingu á smíði opinna tréskipa á Íslandi og er námskeiðið skipulagt í samræmi við samning safnsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Námskeið sem þessi hafa verið haldin árlega frá árinu 2016 en að auki voru haldin námskeið á árunum 2009 – 2012 og má rekja upphaf þeirra til samstarfsverkefnis Síldarminjasafnsins við Bátaverndarmiðstöðina í Gratangen í Norður Noregi. 

Fréttir