Fréttir

Djúpvíkingar í heimsókn

31. ágú. 2018

Meðal margra gesta á Síldarminjasafninu í sumar voru hjónin Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson í Djúpavík. Þau voru hér í tveggja eða þriggja daga heimsókn til að skoða Siglufjörð.

Það eru ríflega þrír áratugir síðan þau Eva og Ásbjörn fluttust norður á Strandir, keyptu gömul síldarmannvirki Hf Djúpavíkur og breyttu kvennabragganum í aðlaðandi hótel. Djúpavík hefur síðan verið eins og spennandi hlið ferðamanna enn lengra norður í fáfarnar víkur og firði.
Anita safnstjóri ásamt Örlygi fyrirrennara hennar tóku sérstaklega á móti þeim Evu og Ásbirni í virðingarskyni við mikilvægt starf þeirra við að reisa nýja starfsemi á “rústum hrundrar borgar” – og var spjallað svolítið um hliðstæðu þess við uppbyggingu Síldarminjasafnsins og umbreytingu Siglufjarðar í vinsælan ferðamannastað.

(Hrundar borgir er bók Þorsteins Matthíassonar um síldarstaðina á Ströndum, Djúpavík og Ingólfsfjörð).

Fréttir