Fréttir

Fáðu þér G-vítamín á Síldarminjasafninu!

9. feb. 2021

Geðhjálp stendur fyrir átakinu G-Vítamín á þorra þar sem verndandi þáttum geðheilsu er gefinn gaumur. Alla daga þorrans er bent á eina aðgerð á dag sem nota má sem G-vítamín. 

Miðvikudaginn 10.febrúar er G-vítamín dagsins að „Gleyma sér“. Því er tilvalið að fara á safn sem er góð leið til að gleyma sér og njóta menningar og listar í leiðinni.

Síldarminjasafnið er meðal þeirra safna og sýninga sem taka þátt í átakinu í Fjallabyggð og stendur gestum og gangandi til boða að heimsækja safnið milli kl. 13:00 og 16:00, miðvikudaginn 10. febrúar. 

Þessi misserin vinna starfsmenn safnsins að ítarskráningu allra gripa í grunnsýningu Róaldsbrakka. Gestir geta því fengið innsýn í fagleg störf starfsfólks á morgun, en samhliða opnun sinnir starfsfólk áfram vinnu sinni við safnkostinn; skráningu safngripa, mælingu þeirra, ljósmyndun osfrv. 

Við bjóðum gesti því hjartanlega velkomna í heimsókn milli klukkan eitt og fjögur, á morgun, 10. febrúar. 

Fréttir