Fréttir

Haustsólin og vetrarstarfið

8. nóv. 2017

Haustsólin skríður yfir Blekkil og sendir geisla sína yfir bæinn. Kannski þá alseinustu á árinu því 15. nóvember er síðasti sólardagurinn á Siglufirði og ekki er bjartviðrið alveg það vísasta í veðurspám næstu daga. Það var Anita Elefsen safnstjóri sem tók þessa fallegu mynd í gær, þriðjudag, er hún fór á milli safnhúsanna til að opna fyrir gestum. Veturinn er að ganga í garð með snjó og frosti en stöku ferðamaður bankar uppá og bókaðar eru heimsóknir fyrir hópa, og svo er opnað ef því er við komið og gestir boðnir velkomnir - þrátt fyrir miklar annir. Þessar árstíðir þegar um hægist í gestamóttöku eru nefnilega þær einna annasömustu í safnstarfinu við að skipuleggja og undirbúa ný og fjölbreytileg verkefni sem eiga eftir að koma í ljós með hækkandi sól á nýju ári.

Fréttir