Fréttir

Heimsókn forsætisráðherra

5. apr. 2022

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Síldarminjasafnið í liðinni viku. Hún færði safninu tvær innrammaðar ljósmyndir eftir Vigfús Sigurgeirsson – en þær ætlaði hún að afhenda á 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar 20. maí 2018. Þann daginn viðraði svo illa að flug var fellt niður og forsætisráðherra komst ekki til afmælishátíðarinnar, en nú, nær fjórum árum síðar, komust myndirnar á leiðarenda. Ljósmyndirnar tvær sýna siglfirkst skíðafólk í Gimbraklettum – með Siglufjörð síldaráranna í baksýn.
Að auki færði ráðherra Síldarminjasafninu til varðveislu skíði og skíðastafi föður síns, Jakobs Ármannssonar. Jakob bjó á Siglufirði sem barn og ungur maður en faðir hans starfaði fyrir Útvegsbankann. Að sögn Katrínar var faðir hennar þó ekki mikill skíðamaður og eru skíðin þar af leiðandi afar lítið notuð.
Starfsfólk Síldarminjasafnsins þakkar forsætisráðherra kærlega fyrir heimsóknina og gjafirnar.

Fréttir