Fréttir

Jólakveðja Síldarminjasafnsins

21. des. 2020

Jólakveðja Síldarminjasafnsins er að þessu sinni í formi tónlistar í flutningi tveggja starfsmanna safnsins; Eddu Bjarkar Jónsdóttur og Harðar Inga Kristjánssonar, sem fengu til liðs við sig Júlíus og Tryggva Þorvaldssyni og Mikael Sigurðsson. Þeir eru ásamt Herði nemendur í skapandi tónlist í Menntaskólanum á Tröllaskaga og eru landsmönnum kunnugir eftir sigur í Söngkeppni framhaldsskólanna nú í haust. Við á Síldarminjasafninu erum mjög ánægð með að fá svo efnilegt tónlistarfólk til liðs við okkur.

Lagið sem varð fyrir valinu er Hvít Jól eftir Irving Berlin (1888-1989) við íslenskan texta Stefáns Jónssonar (1905-1966). Lagið er amerískt jólalag sem upprunalega bar heitið White Christmas og var fyrst gefið út árið 1942 í flutningi Bing Crosby (1903-1977). Sú útgáfa er samkvæmt Heimsmetabók Guinness söluhæsta lag á heimsvísu, en selst hafa allt að 50 milljón eintaka og hefur lagið verið sungið á fjölmörgum tungumálum.

Lagið var gefið út á íslesku árið 1964, en þá kom út platan Fjögur jólalög, 45 snúninga hljómplata gefin út af SG – hljómplötum. Á henni syngja Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason fjögur jólalög ásamt Hljómsveit Svavars Gests. Þar var lagið sungið á íslensku við texta Stefáns Jónssonar (1905-1966) og bar heitið Hvít jól.

Það sama ár var lagið gefið út á íslensku á annarri plötu – en með öðrum texta. Það var platan Hátíð í bæ, 33 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur. Á henni flytur Haukur Morthens 20 jóla- og barnasöngva og syngur lagið við texta Fríðu Sæmundsdóttur.

Með þessari kveðju óskar starfsfólk Síldarminjasafns Íslands landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Flytjendur:
Edda Björk Jónsdóttir (söngur)
Hörður Ingi Kristjánsson (píanó)
Júlíus Þorvaldsson (gítar og söngur)
Mikael Sigurðsson (bassi)
Tryggvi Þorvaldsson (rafmagnsgítar og söngur)

Myndbandsupptaka:
Edda Björk Jónsdóttir
Inga Þórunn Waage

 

Fréttir