Fréttir

Krían komin í Bátahúsið

11. jún. 2017

Fimmtudaginn 8. júní sl. afhentu Bjarni og Jónas Sigurjónssynir Síldarminjasafninu bátinn Kríu í minningu afa síns, Jónasar Jónssonar Long frá Ólafsfirði. Nú eru alls varðveittir tólf bátar í Bátahúsinu og Krían sá langelsti. Hún er hin glæsilegasta og hefur verið líkt við bát í þjóðbúningi – en hún var gerð upp á áttunda áratug síðustu aldar og hefur ekki verið siglt síðan.

Krían var smíðuð í Lofoten í Noregi skömmu fyrir aldamótin 1900 – hún kom til Íslands með norskum selföngurum um aldamótin og varð eftir í Grímsey. Jónas Jónsson Long keypti Kríuna árið 1927 og hefur hún alla tíð síðan verið í vörslu fjölskyldunnar. Til gamans má geta að í bátnum er gangfær Sóló vél frá árinu 1897!

Forsvarsmenn Síldarminjasafnsins færa Bjarna, Jónasi og fjölskyldum þeirra bestu þakkir fyrir rausnarlega gjöf.

Gestir Síldarminjasafnsins geta borið gripinn augum í Bátahúsinu, en safnið er opið alla daga frá kl. 10 – 18.

Á myndinni má sjá þá bræður Bjarna og Jónas Sigurjónssyni ásamt Anitu Elefsen safnstjóra, við Kríuna. Myndina tók Gunnlaugur Stefán Guðleifsson. 

Fréttir