Fréttir

Ljósmyndasöfn Más og Odds Guðmundar Jóhannssona

31. jan. 2020

Nýlega barst Ljósmyndasafni Síldarminjasafnins dýrmæt viðbót er filmusafn Odds Guðmundar Jóhannssonar var afhent til framtíðarvarðveislu.

Oddur Guðmundur fæddist á Siglufirði árið 1954, hann var um skeið mikill áhugaljósmyndari og tók megnið af myndum sínum á árunum eftir 1970. Sögulegt gildi ljósmyndanna er ótvírætt en þær gefa afar glögga og greinargóða mynd af Siglufirði á árunum eftir hvarf síldarinnar. Um er að ræða á þriðja þúsund frummyndir. Filmusafni Odds fylgdi jafnframt fjárstyrkur sem nýttur var til kaupa á sérstökum umbúðum fyrir filmurnar. Þessa dagana er unnið að því að gefa hverri mynd safnnúmer, atriðisorðaskrá og greina myndefnið – samtímis því sem filmunum er komið fyrir í sýrufríum plöstum og öskjum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Már Jóhannsson, bróðir Odds, myndaði líka töluvert á Siglufirði á árunum 1960-1969, og afhenti hann filmusafn sitt um mitt síðasta ár. Fyrir fimm árum færðu þeir bræður safninu skönnuð afrit af ljósmyndum sínum, en nú hafa frumeintökin verið afhend og verða ljósmyndir þeirra bræðra þannig varðveittar á Ljósmyndasafni Síldarminjasafnsins til framtíðar. Oddi Guðmundi og Má eru færðar bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf. 

Fréttir