Fréttir

Mikilvæg hreinsun

21. ágú. 2017

  • 20728153_10159166122785174_1784474154490066516_n

Starfsmenn Síldarminjasafnsins tóku sig til nú á dögunum með dyggri aðstoð sjálfboðaliða og hreinsuðu skipið Daníel sem stendur við gömlu dráttarbrautina á Siglufirði. Bæði var mokað af þilfarinu fokjarðvegi og gróðri og alls kyns tóg og plastkassar úr lestinni fjarlægð. En það sem skipti mestu var að logskera burtu ýmisskonar búnað sem hafði safnast utan á skipið í tímans rás, svo sem gálga, styttur, fiskirennu og skjólborð - og orðið var mjög ryðgað. Lítur skipið mun betur út en áður og skrokkformið hreinna og lögulegra fyrir ferðamenn og ljósmyndara sem eru með myndvélar sínar þar á lofti. Daníel, ásamt húsum Síldarminjasafnsins, smábátahöfninni, Rauðku og Hannesi Boy, kirkjunni, Sæluhúsinu við Aðalgötu og skúlptúrum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur eru líklegast einna algengustu myndefni ferðamanna á Siglufirði.

Daníel var smíðaður í Hafnarfirði 1943 og hét í upphafi Guðmundur Þórðarsson GK 75, þá Fálkanes SF 77, Guðmundur RE 19, Þorleifur Magnússon SH 172, Sonja B. SH 172, Bakkavík ÁR 100, Bjarnavík ÁR 13 og loks Daníel SI 152. Ætlunin er að gera skipinu meira til góða á næsta ári.

Fréttir