Salthúsið í heila höfn
Snemma morguns 17. júní lagðist Keilir SI að Óskarsbryggju eftir átta og hálfs tíma siglingu frá Akureyri með flutningspramma í eftirdragi. Þá var sólarhringur liðinn frá því þeir flutningsmenn hófu að hífa gólfeiningarnar úr fyrri ferðinni upp á bryggju. Þunglestaður pramminn í eigu Stefáns Einarssonar frá Siglunesi stóðst væntingar og því betur sem undiraldan óx undir lok ferðar. Meðfylgjandi myndir tók Guðný Róbertsdóttir þegar þessu flutningsævintýri lauk og Salthúsið var komið til nýrra heimkynna á Siglufirði. Þess má geta að þetta stóra geymsluhús var byggt á Suðureyri í lok 19. aldar, síðar endurbyggt á Tálknafirði og í þriðja sinn á Akureyri 1946 - þannig að ferðin nú var a.m.k. fjórða sjóferð húsviðanna. Salthúsið er samvinnuverkefni Síldarminjasafnsins og Þjóðminjasafns Íslands en það hafði um skeið uppi áform um að nýta það á Akureyri sem þjónustuhús fyrir Norðurland.
Leiðangursstjórar Örlygur Kristfinnsson og Gunnar Júlíusson ræða málin.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt