Fréttir

Margfalt afmæli

15. okt. 2014

  • © Steingrímur Kristinsson
  • © Steingrímur Kristinsson
  • © Steingrímur Kristinsson

Félag áhugamanna um minjasafn 25 ára – Róaldsbrakki 20 ára - Grána 15 ára

- Bátahúsið 10 ára – Salthúsið fokhelt 2014

Á margföldu afmælisári var ákveðið að minnast tímamótanna og „gera upp við“ þá sem lögðu mikið á sig við að byggja upp Síldarminjasafnið - að horfa inn á við til þess kjarna áhugamanna sem tók málin í sínar hendur og lét gamlan draum um minjasafn Siglufjarðar rætast. Þann 11. okt. var haldin afmælisveisla í Gránu og boðið fjölda fólks og sérstaklega þeim sem lögðu mikið af mörkum með eigin höndum og þeim færðar þakkir. Þá var einnig allmörgum öðrum gestum boðið til afmælisfundarins, t.d. fulltrúum stofnana sem lögðu uppbyggingu safnsins ómetanlegt lið.
Á fundinum voru þrír einstaklingar heiðraðir sérstaklega, Gunnar Júlíusson, Sigþóra Gústafsdóttir og Guðni Sigtryggsson fyrir einstakt framlag þeirra.
Núverandi og fyrrverandi formenn Fáum fluttu ávörp, Örlygur Kristfinnsson, Hafþór Rósmundsson og Guðmundur Skarphéðinsson. Steinunn María Sveinsdóttir og Anita Elefsen, starfsmenn safnsins, tóku einnig til máls. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ræðu. Og síðan fluttu ávörp dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu menningararfs í  forsætisráðuneytinu, Rakel Björnsdóttir, formaður Siglfirðingafélagsins, Sigurður Valur, bæjarstjóri Fjallabyggðar, Jón Sigurpálsson, safnstjóri Ísafirði og Pétur Kristjánsson, safnstjóri á Seyðisfirði.
Um kvöldið var svo haldin veisla í Bátahúsinu þar sem 70 manns nutu síldarrétta og tónlistardagskrár; Frá rímum til rokks – siglfirsk tónlist í hundrað ár í flutningi kvæðamannaflokksins Rímu og söngsveitarinnar Góma. Veislustjórn var í höndum stórleikarans og Siglfirðingsins Theodórs Júlíussonar.

Fleiri myndir frá afmælinu má finna á heimasíðu Steingríms Kristinssonar, www.sk21.is.





                                                                                                               

Fréttir