Fréttir

Hundrað ára varðstaða

4. júl. 2015

Miðvikudaginn 1. júlí voru eitt hundrað ár liðin síðan slökkvilið Siglufjarðar var stofnað. Siðan þá hefur ótalinn fjöldi vöskustu manna samfélagsins ætíð verið viðbúinn því að bruna fyrirvaralaust af stað á næsta brunastað hvar eða hvenær sem hann varð eða verður. Menn með þrautþjálfaða viðbragðs- og aðgerðaáætlun um að veita þá þjónustu sem fæstir vilja þiggja ótilneyddir - og forðast eins og heitan eldinn. Fyrrum, meðan ekki var óalgengt að eldar kviknuðu og grönduðu eigum og lífi manna, var blásið í brunalúðra og hlaupið á stað með frumstæðan tækjabúnað á tréhjólum. Nú er öldin önnur, æ sjaldnar kviknar í og Slökkvilið Fjallabyggðar hefur yfir að ráða margbrotnum og fullkomnum tækjabúnaði. Og á stöðinni vakir Ámi brunavörður alla daga og er því meir elskaður af samborgurm sínum sem hann hefur sig minna í frammi - sérstaklega eru hann og brunabílarnir hans dáðir af litlu leikskólabörnunum sem heimsækja hann reglulega. Og flest vilja þau vera í liði með Áma.
Í tilefni afmælisdagsins var sérstök hátíðarstaða hjá Áma á hlaði slökkvistöðvarinnar - eins og meðfylgjandi ljósmynd sýnir: Ámundi Gunnarsson klæddur úniformi fyrri slökkviliðsstjóra. Á undan honum gegndu þessu embætti kappar sem mörg okkar muna: Kristinn Georgsson, Egill Melsted, Flóvent Jóhannsson, Guðmundur Bíldal, Jón Guðmundsson og Gunnlaugur Þorfinnsson. Gunnlaugur hafði reyndar þann virðulega titil að vera kallaður slöngustjóri. Á móti rýrum tækjabúnaði á fyrstu árum Slökkviliðs Siglufjarðar var verka- og deildaskipting liðsins mun betur skipulögð en nú gerist. Nærri 55 liðsmönnum var skipað niður í eftirtaldar sjö deildir: björgunarlið, húsrifslið, vatnsslöngulið, stigalið, brunahanalið, lögreglulið og brunaboða. Þeir síðasttöldu höfðu þann mikilvæga starfa að hlaupa á milli húsa með lúðra sína og blása hin liðin sex á vettvang.


Starfsfólk Síldarminjasafnsins vill af ærnu tilefni þakka slökkviliðinu og Áma fyrir vinsamlegt nábýli - og sérstaklega þá öryggiskennd sem það veitir.

Fréttir