Fréttir

Samband íslenskra sjóminjasafna fundaði á safninu

11. nóv. 2015

Samband íslenskra sjóminjasafna hélt bæði almennan félagsfund og aðalfund í Bátahúsi Síldarminjasafnsins 24. október sl.. Fundinn sátu fulltrúar Bátasafns Breiðafjarðar, Borgarsögusafns Reykjavíkur, Byggðasafnsins í Görðum, Akranesi, Byggðasafns Vestfjarða, Síldarminjasafns Íslands og Tækniminjasafns Austurlands auk formanns sambandsins.

Á félagsfundinum var rætt um þátt strand- og sjóminja í nýrri stefnumótun á sviði þjóðminjavörslu, ábyrgðarsafn á sviði sjóminjavörslu, mat á varðveislugildi báta og örlög Kútters Sigurfara.

Á aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn til tveggja ára og tók Helgi Máni Sigurðsson, Borgarsögusafni Reykjavíkur, við formennsku af Rósu Margréti Húnadóttur. Anita Elefsen, Síldarminjasafni Íslands, var kjörin gjaldkeri og Þjóðminjasafn Íslands tilnefndi Ágúst Georgsson til áframhaldandi stjórnarsetu og verður hann ritari stjórnar.

Í lok fundar var fráfarandi formanni færður blómvöndur og þökkuð vel unnin störf.

Fréttir