Fréttir

Stjórnarfundur

18. des. 2015

Fimmtudaginn 10. desember sl. var haldinn fundur í stjórn Síldarminjasafnsins þar sem stór og mikilvæg málefni voru tekin fyrir. Í upphafi fundar voru kynntir tveir nýjir varamenn í stjórn; Gunnar Júlíusson fyrir hönd FÁUM og Arndís Erla Jónsdóttir fyrir hönd Fjallabyggðar.
Meðal þess sem rætt var á fundinum var endurnýjuð stefnumörkun safnsins, til næstu fjögurra ára. En samkvæmt safnalögum skulu söfn leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun. Er viðurkenndum söfnum því skylt að skila stefnumörkun um starfsemi sína til höfuðsafns og Safnaráðs á fjögurra ára fresti.
Gaman er að segja frá því að nær öllum atriðum þeirrar stefnumörkunar sem fellur úr gildi um komandi áramót hefur verið lokið eða þau könnuð til hlýtar. Meginatriðin í nýrri stefnumörkun Síldarminjasafnsins 2016 – 2019 varða starfsmannahald, skráningu og varðveislu, miðlun sögunnar á fjölbreyttari hátt og þróun safnkennslu svo dæmi séu nefnd.
Þá var rekstrar- og verkefnaáætlun ársins 2016 lögð fram til kynningar, en gert er ráð fyrir heildarkostnaði að upphæð 49,4 milljónir, þar af 14,8 milljónir vegna sérstakra verkefna. Sem dæmi um slík verkefni má nefna áframhaldandi uppbyggingu Salthússins, endurnýjun sýningarbúnaðar í Bátahúsinu og uppsetningu sprinkler kerfis í Róaldsbrakka.
Að lokum var lagður fram til kynningar endurnýjaður samningur Síldarminjasafnsins við Menntamálaráðuneytið en núverandi samningur fellur úr gildi um áramót. Þann 3. desember sl. undirrituðu Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Anita Elefsen rekstrarstjóri safnsins þriggja ára samning, sem gildir frá 1. janúar 2016 nk. til ársloka 2018.

Fréttir