Fréttir

Vegleg gjöf

20. maí 2016

Fyrr í dag, á afmælisdegi Siglufjarðarkaupstaðar - 20. maí, færði SkSigló ehf. Síldarminjasafninu Ljósmyndasafn Siglufjarðar að gjöf. Afhending fór formlega fram með undirritun gjafaafsals við látlausa en vinalega athöfn í Bátahúsinu. Ljósmyndasafn Siglufjarðar hefur fram að þessu verið eitt stærsta einkasafn á landinu og telur yfir hundrað þúsund ljósmyndir. Grunninn að umræddu Ljósmyndasafni lagði Steingrímur Kristinsson að eigin frumkvæði, af mikilli elju og með mikilli vinnu.

Á opnum íbúafundi á Rauðku í dag sagði Anita Elefsen safnstjóri frá gjöfinni: „Nú þegar Ljósmyndasafn Siglufjarðar er ekki lengur einkasafn, heldur hluti af safnkosti Síldarminjasafnsins – er raunhæft að áætla að feiri einkasöfn muni mögulega renna inn í safnið og þannig verði það þegar frá líður fjölbreyttara, umfangsmeira og gefi mjög greinargóða mynd af sögu staðarins. En ljósmyndir eru eins og allir vita frábærar heimildir um horfna tíma og allt það sem áður var. Það eru ekki bara staðarhættir, húsbyggingar eða þekkt andlit sem marka söguna og lifa í ljósmyndunum – heldur má líka greina þjóðfélagsandann, tískuna, rómantíkina, vinnuna, ástina, erfiðið og ævintýrin.

Ljósmyndasafn Siglufjarðar er kærkomin viðbót við safnkost Síldarminjasafnsins og mjög spennandi að nú verði til sérstök ljósmyndadeild innan safnsins. Þessi gjöf er dæmi um sífellda framþróun og vöxt á Síldarminjasafninu – sem hefur á rúmum tuttugu árum vaxið úr því að vera framtíðardraumur hóps áhugamanna í stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og það eina hérlendis sem hlotið hefur alþjóðleg verðlaun. [...] Hvað varðar samstarf Síldarminjasafnsins og Rauðku, þá er skemmtilegt að samstarf okkar geti skarast á báðum starfssviðum safnsins, þ.e. bæði gagnvart ferðaþjónustunni og faglega starfinu. Við byggjum rekstrargrundvöll okkar að ákveðnu leyti á ferðaþjónustunni og gestakomum, en á sama tíma er Síldarminjasafnið fagleg stofnun á sviði minjavörslu í landinu – og móttaka Ljósmyndasafnsins eykur við faglegt starf okkar og bætir safnkostinn svo um munar. Ég vil því færa Róberti, Siggu og Finni og síðast en ekki síst Steingrími bestu þakkir fyrir gjöfina og alla þá vinnu sem þau hafa lagt í Ljósmyndasafn Siglufjarðar fram til þessa. Takk!“

 

Fréttir