Fréttir

Líkan af Drangi fært Síldarminjasafninu

8. júl. 2016

Á mánudag færðu Sigurður, Snæbjörn og Jósef Guðbjartssynir, Jón Ellert Guðjónsson og fjölskyldur þeirra Síldarminjasafninu líkan af flóabátnum Drangi. Sigurður, Snæbjörn og Jósef eru synir Guðbjarts Snæbjörnssonar fyrrum skipstjóra á Drangi.

Drangur er stór þáttur í samgöngusögu Fjallabyggðar, þ.e. bæði Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, en á árunum 1946 – 1991 sigldi hann á norðlenskar hafnir tvisvar til þrisvar í viku. Með Drangi voru fluttar til staðanna vörur ýmiss konar, mjólk, matvæli og póstur, jafnt sem farþegar.

Líkaninu hefur verið komið fyrir í anddyri Bátahússins og verður þar til sýningar í sumar. Staðsetning þess verður svo endurskoðuð en því er ætlaður staður í nýrri sýningu í Salthúsinu, þar sem fjallað verður um veturinn í síldarbænum. 

Við afhendinguna flutti Vilhjálmur Bragason frumsamið ljóð:

Með þessu viljum minnast
hins magnaða Drangs
og heiðurs þeirra handa
er hann sigldu til langs.
Með gjöfinni við gjöldum
og greiðum fyrir því
að á öldum minninganna
siglir Drangur á ný.

Líkanið smíðaði Grímur Karlsson og sýnir það elsta Drang, sem sigldi frá 1946 -1959, en alls voru þeir þrír.

Starfsfólk Síldarminjasafnsins færir gefendum og fjölskyldum þeirra bestu þakkir fyrir rausnarlega gjöf.

Líkanið af Drangi sem nú er til sýningar í Bátahúsinu



Fréttir