Fréttir

Síldarstúlka

15. ágú. 2016

Laugardaginn 13. ágúst, færðu systurnar Anna Sigríður, Alda, Halldóra og Þórdís Jónsdætur Síldarminjasafninu að gjöf skúlptúr úr smiðju Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Verkið er gefið í minningu foreldra þeirra, Sigurlaugar Davíðsdóttur sem saltaði síld í 42 sumur og Jóns Þorkelssonar skipstjóra, síldarmatsmanns og verkstjóra hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Afkomendur þeirra Jóns og Sigurlaugar voru saman komnir í Bátahúsinu ásamt vinum, vandamönnum og starfsfólki Síldarminjasafnsins við litla athöfn er verkið var formlega afhent.

Til máls tóku Jón Baldvin Hannesson og Þórdís Jónsdóttir fyrir hönd gefenda, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem sagði frá tilurð verksins og Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins.

Síldarstúlkan situr á bryggjunni í Bátahúsinu og mun þar um ókomna tíð standa vörð um minningu, störf og heiður allra þeirra kvenna sem unnu í síldinni.

Listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir ásamt Þórdísi og Halldóru Jónsdætrum - sem voru á staðnum fyrir hönd gefenda.


Fréttir