Fréttir

Styrkur til áframhaldandi uppbyggingar Salthússins 

28. okt. 2016

Miðvikudagskvöldið 26. október sl. undirrituðu Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Anita Elefsen, safnstjóri samning um 35 milljón króna styrk til að fjármagna áframhaldandi uppbyggingu Salthússins. Styrkurinn verður greiddur á fjögurra ára tímabili, frá 2017 - 2020.

Síldarminjasafnið sótti fyrr í haust um styrk til ráðuneytisins vegna stofnkostnaðar við uppbyggingu hússins, í samræmi við 11. gr. safnalaga, þar sem kveður á um að heimilt sé að veita viðurkenndu safni styrk úr ríkissjóði til að mæta kostnaði við byggingu safnhúsa.

Þessi rausnarlegi styrkur gerir safninu kleift að hefjast handa við vinnu innandyra fyrr en áætlað var og þar af leiðandi taka hluta hússins til notkunar fyrr en ella.

Segja má að styrkurinn hafi staðfest formlegt samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands, Minjastofnunar, sveitarfélagsins Fjallabyggðar, Félags áhugamanna um minjasafn og Síldarminjasafnsins við að bjarga merkilegu húsi og finna því mikilvægt hlutverk. 

Sjá tengda frétt á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis: Samingur um stofnstyrk vegna uppbyggingar Salthússins á Siglufirði

Á meðfylgjandi mynd má sjá starfsfólk safnsins og hluta stjórnarmanna ásamt mennta- og menningarmálaráðherra.
Örlygur Kristfinnsson, Steinunn M. Sveinsdóttir, Illugi Gunnarsson, Anita Elefsen, Guðmundur Skarphéðinsson og Gunnar Júlíusson.

Fréttir