Fréttir

„Síldarstúlkurnar komnar heim“

7. des. 2016

Óhætt er að segja að mikil gleði hafi ríkt í Bátahúsinu í gær, að kvöldi 6. desember, er forsvarsmenn Íslandsbanka færðu Síldarminjasafninu málverkið „Konur í síldarvinnu“ eftir Gunnlaug Blöndal að gjöf.

Anita Elefsen, safnstjóri, veitti verkinu móttöku fyrir hönd safnsins og flutti þakkarávarp. Þar kom fram að lengi hafi „síldarstúlkurnar í bankanum“ verið eins og eitt af kennileitum bæjarins. Litríkar síldarstúlkurnar hafi á dimmum og snjóþungum vetrum verið eins og táknmynd um vonina eftir nýrri sumarkomu. Þegar síldin færi að veiðast á ný og bærinn fylltist af ótrúlegu lífi og fjöri og óþrjótandi verðmætasköpun. Segja má að verkið sé orðið mjög víðförult, en það hefur verið sent á sýningar erlendis og til Reykjavíkur – og stundum mikill efi um hvort það skyldi nokkurn tíma rata aftur heim til Siglufjarðar. (Hér má lesa um sögu málverksins)

Málverkinu er ætlað stórt hlutverk í nýrri sýningu safnsins í Salthúsinu, sem vonandi auðnast að opna innan fárra ára. Þar verður fjallað um veturinn í síldarbænum og verður málverkið „Konur í síldarvinnu“ eins og sólríkur miðdepill í dimmum og snjóþungum vetrinum.

Forsvarsmenn Síldarminjasafnsins vilja þakka Íslandsbanka fyrir afar rausnarlega gjöf – málverkið er sannarlega komið heim, reynslunni ríkara eftir ferðalög til Barcelona, Reykjavíkur og New York! Jafnframt eru Illuga Gunnarssyni færðar þakkir fyrir milligöngu hans í málinu, sem og Sigurði Hafliðasyni fyrrum útibússtjóra sem barðist fyrir því að fá verkið aftur heim fyrir nær 25 árum.

Íslandsbanki – innilegar þakkir! 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, afhendir verkið. Ljósmynd: Sigurður Ægisson

Fréttir