Fréttir

Grunnskólabörn fræðast um ævi og störf Gústa guðsmanns

10. mar. 2021

Í vikulegum kennslustundum sínum á Síldarminjasafninu fræðast nemendur 5. bekkjar um ýmis málefni tengd safnastarfi og sögu staðarins. Þessa vikuna kom Sigurður Ægisson sóknarprestur í heimsókn og sagði nemendum 5. bekkjar frá ævi Gústa guðsmanns, en hann hefur skrifað ítarlega um ævi hans í bók sinni Gústi – alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn (2019).


Ágúst Gíslason fæddist í Dýrafirði á Vestfjörðum árið 1897 og dó 1985 á Siglufirði – en þar hafði hann búið í hartnær sextíu ár. Á ungdómsárum sínum sigldi hann um öll heimsins höf og kynntist fjarlægum þjóðum og misjöfnum kjörum þeirra. Guðstrúin, sem amma hans innrætti honum ungum, efldist honum í hjarta á ferðum hans og leiddi hann til einveru og meinlætalífs í þeim helga tilgangi að gefa og hjálpa þeim sem hann taldi standa höllum fæti í lífinu og höfðu ekki kynnst Guði og syni hans Jesúm Kristi.


Krakkarnir fengu meðal annars að fræðast um löndin sem Gústi heimsótti á ferðum sínum, hlusta á upptöku af honum syngja, skoða gamla miða sem hann skrifaði á ritningar úr Biblíunni og deildi með samferðarfólki sínu og að lokum skoðuðu þau gamla bátinn hans, Sigurvin SI-16, sem er til sýnis í Bátahúsi Síldarminjasafnsins.

Fréttir