Fréttir

Saga úr síldarfirði og 1. bekkur

17. maí 2018

Starfsmenn Síldarminjasafnsins luku nýverið við gerð náms- og safnkennsluefnis fyrir yngri og eldri stig grunnskóla. Bókin Saga úr síldarfirði, sem safnið gaf út árið 2011, var lögð til grundvallar sem og aðalnámskrá grunnskóla. Góð reynsla hefur verið af kennslu bókarinnar í byrjendalæsi í Grunnskóla Fjallabyggðar undanfarin ár, og gáfu kennarar skólans góð ráð í ferlinu. 

Fyrir yngri stig grunnskóla voru útbúin verkefni sem miða að íslenskri tungu, orðaforða, orðasamböndum, lesskilningi osfrv. Börnin geta þannig spreytt sig á orðarugli, krossgátu og orðasúpu ásamt teikniverkefnum, verkefnum með áttavita og orðaflokkun. Öll byggja verkefnin á ríkum orðaforða bókarinnar, og eru þau aðgengileg á vefsíðu safnsins. Þar að auki voru framleidd púsl og samstæðuspil eftir vatnslitamyndunum sem skreyta bókina. 

Útbúið var ferðakoffort til notkunar og fræðslu í skólastarfi. Þar er að finna muni sem gefa innsýn í líf fólks á síldarárunum og tengjast með einum eða öðrum hætti sögunni af Sigga.
Skólar allsstaðar af landinu geta fengið koffortið lánað og nýtt til kennslu. 

Fyrsti bekkur Grunnskóla Fjallabyggðar fékk ferðakoffortið til sín á dögunum. Starfsmenn safnsins fylgdu verkefninu úr hlaði og heimsóttu kennslustund þar sem Örlygur, höfundur bókarinnar, las kafla fyrir börnin og Anita og Steinunn kynntu innihald koffortsins. 

Þegar fyrsta síldarsöltun sumarsins fór fram þann 14. maí sl., fyrir farþega skemmtiferðaskipsins Ocean Diamond, komu nemendur 1. bekkjar í heimsókn á síldarplanið. Krakkarnir sungu Síldarvalsinn fyrir hópinn sem og stemmuna "Austan kaldinn". Börnin fylgdust í framhaldinu með síldarsöltun og tóku þátt í hringdansi með farþegum skipsins. Með þessu móti luku börnin yfirferð sinni á Sögu úr síldarfirði og námsverkefnum henni tengdri. 

Starfsmenn Síldarminjasafnsins þakka nemendum og kennurum 1. bekkjar kærlega fyrir ánægjulegt og skemmtilegt samstarf. 

Fréttir