Fréttir

Samstarf við Byggðasafnið í Gamvik

28. mar. 2018

Síldarminjasafnið vinnur þessi misserin að sameiginlegri sögusýningu með Byggðasafninu Gamvik í Finnmörku, Norður Noregi - en verkefnið felst í að bera saman samfélög safnanna í fortíð og nútíð. Sjávarútvegur hefur verið undirstöðuatvinnugrein bæði á Siglufirði og í Gamvik, sem og víðar í Finnmörku í gegn um tíðina, auk þess sem samfélögin eiga það sameiginlegt að vera staðsett á norðurodda, hvort í sínu landinu. 
Um miðjan mars mánuð dvöldu þau Torstein Johnsrud frá Gamvik Museum og Hilde Nielsen frá Nordkappmuseet vikulangt á Siglufirði. Markmið heimsóknarinnar var að samstarfsaðilarnir fengju tækifæri til að kynna sér sögu, sýningar og umfang Síldarminjasafnsins, en fyrst og fremst var tíminn nýttur til undirbúnings og vinnu við væntanlega sýningu sem sett verður upp bæði á Siglufirði og í Gamvik sumarið 2019.
NORA, Norrænt Atlantshafssamstarf, styrkir samvinnuverkefnið. 

Fréttir