Fréttir

Síldarævintýrið 2017

8. ágú. 2017

Árið 1991 var útihátíðin Síldarævintýrið haldin í fyrsta sinn. Næstu árin þar á eftir voru þessar hátíðir afar fjölmennar og glæsilegar og mun Síldarævintýrið hafa haft sín áhrif á að upp spruttu slíkar bæjarhátíðir víða um land. Framlag Síldarminjasafnsins til hátíðarinnar var alltaf mikilvægt samtímis því að áhugi hátíðargesta á safninu var sem byr í seglin á árum hinnar miklu uppbyggingar.

Fyrr í sumar var gefin út yfirlýsing af hálfu bæjaryfirvalda um að ekki yrði nein hátíð haldin að þessu sinni og vakti hún athygli margra landsmanna. En svo æxluðust mál að á síðustu stundu var drifið í því að auglýsa að Síldarævintýrið yrði með líku sniði og fyrr. Mun aðsókn aðkomumanna hafa verið nokkuð í samræmi við þessar kringumstæður.

Nú eins og fyrr lét Síldarminjasafnið ekki sitt eftir liggja til að skemmta gestum og gangandi. Mikil síldarsöltun var haldin á laugardegi þar sem nokkuð á þriðja hundrað manns sótti og síðan sett upp mikið og fjölsótt síldarhlaðborð – hvort tveggja gestum að kostnaðarlausu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar síldin var skorin á langborðum og fólk flyktist að og gæddi sér á réttunum.











Fréttir