Fréttir

Síldarminjasafnið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2022

2. maí 2022

Í dag var tilkynnt hvaða söfn eru tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2022 og er Síldarminjasafnið í hópi þeirra fimm safna sem tilnefnd eru til verðlaunanna. Til gamans má geta þess að Síldarminjasafnið hlaut íslensku safnaverðlaunin árið 2000, í fyrsta sinn sem þau voru veitt.


Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent. Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og almenningi. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum og verður auglýstur nánar síðar. 

Síldarminjasafnið er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir framúrskarandi fræðsluverkefni sem unnið var í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar 2020-2021 og hafði valnefnd verðlaunanna þetta um verkefnið að segja: 

Síldarminjasafn Íslands – framúrskarandi fræðsluverkefni

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði stendur vörð um þann merka kafla í þjóðarsögunni sem síldin markar og kallaður hefur verið síldarævintýrið. Um er að ræða eitt stærsta safn landsins þar sem sögu síldarárana eru gerð skil með metnaðarfullri sýningargerð og öflugu fræðslustarfi.

Síldarminjasafnið hefur um árabil tekið á móti skólahópum á öllum námsstigum, frá leikskóla til háskóla. Síðustu ár hefur safnið unnið að metnaðarfullu fræðsluverkefni sem nefnist „Safn sem námsvettvangur“, í samvinnu við Grunnskóla Fjallabyggðar. Þar eru samþætting námsgreina, skapandi starf og virkni nemenda og samvinna við nærsamfélagið á meðal áhersluatriða.

Markmið verkefnisins er að kynna fjölbreyttan starfsvettvang safnsins fyrir börnum og unglingum á tveimur eldri stigum grunnskóla og gefa þeim færi á að sjá og skynja safnið frá öðru sjónarhorni en almennir safngestir. Námskeiðin eru þróuð í samstarfi við starfsfólk Grunnskóla Fjallabyggðar og þau sniðin að hverjum aldurshópi fyrir sig, með tilliti til gildandi aðalnámskrár og markmiða skólastarfsins. Kennslan fer fram í húsakynnum Grunnskólans og Síldarminjasafnsins og hljóta nemendur fræðslu um starfsemi safns; allt frá varðveislu gripa til skráningar, heimildasöfnunar, rannsókna, miðlunar, leiðsagna og almennrar kynningastarfsemi safnsins.

Vetrarstarfið býr börnin undir það stóra og ábyrgðarmikla hlutverk að stjórna safninu í einn dag. Nemendur taka yfir safnið í einn dag og ganga í fjölbreytt störf; afgreiðslu, leiðsagnir um sýningar safnsins, vinnu í geymslum, vinnu við ljósmyndakost, forskráningu gripa og svo framvegis, með það að markmiði að miðla gestum því sem þau hafa lært á skólaárinu. Þannig hafa börnin stórt og þýðingarmikið markmið fyrir augum á skólaárinu og með þessu móti eru vonir bundnar við að augu íbúa í nær samfélaginu opnist enn frekar því faglega starfi sem fer fram á safninu og á söfnum almennt. Mikil ánægja var með verkefnið hjá nemendum sem og einstaklingum og stofnunum sem að því komu og íbúum nærsamfélagsins.

Mat valnefndar er að verkefnið „Safn sem námsvettvangur“ sé fyrirmyndarverkefni. Lykillinn að velgengni þess er góð samvinna safns og skóla, sem varð til þess að sá einstaki árangur náðist að safnfræðslan varð hluti af stundaskrá þeirra grunnskólanemenda sem hún miðaði að. Þar með eflast góð tengsl við íbúa í heimabyggð og staða safnsins sem virkur þáttur í menntun og tómstundum grunnskólabarna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Tilnefningar til Íslensku safnaverðlaunanna 2022 hljóta jafnframt: 

 

  • Byggðasafnið í Görðum – ný grunnsýning
  • Gerðarsafn – nýjar áherslur í miðlun
  • Hönnunarsafn Íslands – Í stafrænum tengslum
  • Minjasafnið á Akureyri – safn í tengslum við samfélagið 

 

Nánar má lesa um tilnefningarnar á vefsíðu FÍSOS 

Fréttir