Fréttir

Sólardagur

28. jan. 2021

Sólardagurinn, 28. janúar, á sérstakan sess í hjörtum Siglfirðinga – en þann dag njóta íbúar sólskins á Siglufjarðareyri í fyrsta sinn frá því 15. nóvember. Fyrstu sólarkomunni er ávallt fagnað og er áralöng hefð fyrir því að drekka sólarkaffi með pönnukökum.

Undanfarin ár hafa leik- og grunnskólabörn sungið til sólarinnar á kirkjutröppunum. Eitt þeirra laga sem sungin eru, er við kvæði Hannesar Jónassonar, ritstjóra og bóksala, frá árinu 1917 – og fangar vel eftirvæntingu Siglfirðinga:

Kom blessaða sól með birtu og yl
til barnanna á landinu kalda.
Við höfum svo lengi hlakkað til
er hátign þín kemur til valda.
Og vetur, ei getur,
sér lengur í hásæti hreykt.

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir grunnskólabörn staðarins við söng, í froststillu og fallegu veðri. 

Fréttir