Söltunarstöðvar á Siglufirði - útgáfa á handriti Benedikts Sigurðssonar
Ein mikilvægasta heimild sem rituð hefur verið um söltunarstöðvar á Siglufirði er vafalaust handrit Benedikts Sigurðssonar (1918-2014), sem fram til þessa hefur verið óútgefið. Við hér á Síldarminjasafninu höfum lengi átt útprentað eintak, geymt í eldtraustum skáp. Handritið hefur reynst okkur bæði dýrmætt og gagnlegt og hefur því verið flett fram og aftur í leit að upplýsingum við skráningu safnkosts og aðra rannsóknarvinnu.
Nú hafa börn Benedikts gefið handritið út á rafrænu formi, auk viðbótarkafla sem fylgja í viðauka – og er efnið öllum aðgengilegt á vefsíðu Síldarminjasafnsins. Við hvetjum alla áhugamenn og -konur um síldarsöguna og sögu Siglufjarðar að lesa handritið og kaflana um síldarfólkið, síldarfrystingu, Bein hf. og aðra fróðleiksmola sem Benedikt hélt til haga.
Benedikt Sigurðsson setti saman umrætt handrit „Síldarsöltunarstöðvar á Siglufirði“ að tilhlutan Hreins Ragnarssonar sagnfræðings og Gunnars Flóvenz framkvæmdastjóra, til undirbúnings útgáfu á ritinu Silfur hafsins, gull Íslands – síldarsaga Íslendinga, sem Nesútgáfan gaf út árið 2007.
Í handritinu er vandað og greinargott yfirlit yfir allar söltunarstöðvar á Siglufirði. Fyrst er að finna ítarlegan inngang um upphaf síldarvinnslu á Siglufirði á síðustu öld og svo er fjallað um söltunarstöðvarnar hverja fyrir sig frá norðri til suðurs. Fjallað er um sögu stöðvanna og eigendur þeirra og er handritið afar dýrmæt heimild um sögu söltunarstöðva á Siglufirði. Aftast í ritinu er tilvísanaskrá yfir nöfn manna, fyrirtækja og staða.
Sjá nánar hér.
Fréttir- Eldri frétt
- Nýrri frétt