Fréttir

Sýningaropnun á sjómannadag

6. jún. 2020

Á morgun, sunnudaginn 7. júní, höldum við sjómannadaginn hátíðlegan.

Slysavarnardeildin Vörn mun að venju leggja blómsveig að minnisvarðanum um týnda sjómenn og hefst athöfnin klukkan 14:00. Tveir sjómenn verða heiðraðir og Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins flytur ávarp.

Klukkan 15:00 verður opnuð ný útisýning á bryggjunum við Síldarminjasafnið. Sýningin er samsýning Síldarminjasafnsins og Byggðasafnsins í Gamvik. Starfsfólk safnanna vann rannsókn á sögu staðanna, sem eiga margt sameiginlegt í þátíð og nútíð.

Börnum verður jafnframt boðið að taka þátt í ratleik um safnsvæðið. Þeir sem ljúka við ratleikinn geta skilað kortinu sínu í afgreiðslu safnsins og í lok dags verður einn heppinn þátttakandi dreginn út og fær að gjöf bókina Saga úr síldarfirði sem safnið gaf út árið 2011.

Við minnum á að samkvæmt samningi við sveitarfélagið er ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu fyrir alla lögskráða íbúa Fjallabyggðar. Við hvetjum heimamenn, sem og gestkomandi að gera sér glaðan dag í tilefni sjómannadagsins og heimsækja safnið. 

Fréttir